Birna Þórisdóttir 16. des. 2019

Jóladagatal: Gómsætar fiskuppskriftir í aðdraganda jóla

Þar sem kjöt er ómissandi þáttur jólahalds hjá mörgum Íslendingum er upplagt síðustu vikurnar fyrir jól að borða vel af fiski og jurtafæði. Ríkuleg neysla af heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum, baunum og linsubaunum dregur úr líkum á krabbameini. Lax í mangó eða pönnusteikt rauðspretta? Fáðu uppskriftirnar!

Fiskur er ríkur af næringarefnum sem eru af skornum skammti í öðrum fæðutegundum, seleni, joði, löngum ómega-3 fitusýrum og D-vítamíni. Í íslenskum ráðleggingum um mataræði er mælt með tveimur til þremur fiskmáltíðum í viku, þar af ætti ein að vera feitur fiskur. Hvort fiskneysla tengist krabbameini er óljóst en nýleg skýrsla unnin fyrir Krabbameinsfélagið bendir til þess að fiskneysla, og þá sérstaklega neysla á feitum fiski, veiti vernd gegn myndun brjóstakrabbameins.

Appelsínugrafin bleikja? Dill- og kúmengrafin bleikja? Pönnusteikt rauðspretta með döðlum, eplabitum og grænmeti? Lax í mangó? Þorskur eða fáranlega einföld fiskisúpa? Fáðu uppskriftirnar, gerðar af Braga Guðmundssyni matreiðslumanni fyrir Karlaklefa Krabbameinsfélagsins hér.

Í ráðleggingum um mataræði til að fyrirbyggja krabbamein, til dæmis frá International Agency for Research on Cancer, World Cancer Research Fund og American Institute for Cancer Research, er mikil áhersla lögð á daglega neyslu á heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum, baunum og linsubaunum. Neysla heilkornavara og annarrar trefjaríkrar fæðu veitir vernd fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og stuðlar að heilbrigðri líkamsþyngd. Almennt séð veitir mataræði sem er ríkt af fæðu úr jurtaríkinu vernd gegn mörgum tegundum krabbameina.

Ýmislegt er hægt að gera til að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu, en það getur krafist smá hugmyndaauðgi sem og einbeitingar í matarbúðinni. Ávextir og grænmeti geta verið góðir millibitar og jafnvel eftirréttir. Oft er hægt að bæta grænmeti, linsubaunum eða baunum út í rétti sem verið er að elda, jafnvel þó uppistaðan sé kjöt eða fiskur. Í stað fínunninna vara er æskilegt að velja heilkornabrauð, heilkornapasta (spagettí, skrúfur, lasagna plötur o.fl.), bygg og hýðishrísgrjón. Í búðinni er gott að horfa eftir Skráargatinu, en til að geta borið Skráargatið verða vörur að uppfylla sérstök lágmarksskilyrði fyrir trefjum og heilkorni og hámarksskilyrði fyrir sykri, salti og fitu. Einnig er gott að vita að í innihaldslýsingu á matvörum er innihaldsefnum raðað í magnröð, frá mesta í minnsta. Þannig má til dæmis sjá hvort meira sé af heilhveiti eða hveiti í brauði.

Krabbameinsfélagið hvetur landsmenn til að borða ríkulega af fiski og jurtafæði þessa viku fyrir jól. Kíktu á uppskriftirnar en passaðu bara að ganga frá afgöngunum áður en Pottasleikir og Askasleikir komast í þá. 

 

Tengdar greinar:

Jóladagatal - mjólk og krabbamein

Jóladagatal - svefn og krabbamein

Jóladagatal - kjöt og krabbamein

Jóladagatal - hreyfum okkur um jólin


Fleiri nýir pistlar

15. des. 2023 : Jólamolar Krabba­meins­félagsins 2023

Njótum hátíðanna, hlúum að okkur og höfum það notalegt. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

14. des. 2023 : Bleikasta slaufan sló í gegn

Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, hönnuðir Bleiku slaufunni 2023, afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira