Birna Þórisdóttir 20. des. 2019

Jóladagatal: Kjöt og krabbamein

Sagt er að þegar íslensku jólasveinarnir komi til byggða leiti þeir einna helst í eldhús og búr. Ketkrókur og Bjúgnakrækir næla sér í kjötbita á meðan Stúfur hirðir agnirnar sem hafa brunnið við pönnuna. En eru tengsl milli kjötneyslu og krabbameins?

Niðurstöður viðamikilla rannsókna, meðal annars á vegum International Agency for Research on Cancer, World Cancer Research Fund og American Institute for Cancer Research, eru þær að mikil neysla á unnum kjötvörum auki áhættu á krabbameini í ristli og endaþarmi (convincing evidence) og líklegt sé að mikil neysla á rauðu kjöti, t.d. nautakjöti, svínakjöti, lambakjöti, auki áhættu á sama krabbameini (probable evidence). Einnig skiptir máli hvernig kjöt er eldað. Ef kjöt brennur við háan hita þá myndast óæskileg efnasambönd, sem ekki er hægt að útiloka að geti aukið áhættu á krabbameini.

Með unnum kjötvörum er átt við kjöt sem er reykt, þurrkað, saltað eða rotvarið með rotvarnarefnum. Dæmi um unnar kjötvörur eru skinka, spægipylsa, beikon, bjúgu og pylsur. Þó það sé aukin áhætta á krabbameini í ristli og endaþarmi meðal fólks sem borðar mikið magn unninna kjötvara er það ekki svo að stórhættulegt sé að neyta þeirra af og til, en betra er að það sé sjaldan og magninu stillt í hóf. Því er ráðlagt að takmarka neyslu á unnum kjötvörum eins og hægt er til að minnka líkur á krabbameini.

Íslenskar ráðleggingar um mataræði sem og ráðleggingar krabbameinsrannsóknastofnanna eru á þá leið að hófleg kjötneysla geti verið hluti af hollu mataræði. Með hóflegri neyslu er átt við að neysla á rauðu kjöti sé ekki meiri en að hámarki 350-500 grömm á viku. Við gerð þessara ráðlegginga er tekið mið annars vegar af því að kjöt er góð uppspretta próteins, járns, B12-vítamíns og annarra mikilvægra næringarefna, og hins vegar af líklegum tengslum við aukna áhættu á ristil- og endaþarmskrabbameini. Neysla á rauðu kjöti er þó ekki nauðsynlegur hluti af hollu mataræði. Fuglakjöt og fiskur teljast ekki sem rautt kjöt og fólk sem kýs alveg að sleppa kjöti getur uppfyllt þörf sína fyrir öll næringarefni með því að vanda fæðuvalið og borða fjölbreytt.

Á nýju ári hvetjum við landsmenn til þess að neyta kjöts í hófi og takmarka sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum. Í leiðinni ætti að skapast nægt rými fyrir heilkornavörur, grænmeti, ávexti, baunir, linsubaunir og aðra fæðu úr jurtaríkinu, sem veitir vernd gegn krabbameini. Við væntum þess þó að Stúfur, Bjúgnakrækir og Ketkrókur mæti til byggða venju samkvæmt fyrir næstu jól og kræki í kjötbita, enda bara einu sinni á ári sem þeir komast í slíkt.   

Tengdar greinar:

Jóladagatal - mjólk og krabbamein

Jóladagatal - svefn og krabbamein

Jóladagatal - uppáhaldið hans Pottaskefils

Jóladagatal - hreyfum okkur um jólin

Aðrar heimildir:

Norat et al. European Code against Cancer 4th Edition: Diet and cancer. Cancer Epidemiol. 2015 Dec;39 Suppl 1:S56-66.

Vieira et al. Foods and beverages and colorectal cancer risk: a systematic review and meta-analysis of cohort studies, an update of the evidence of the WCRF-AICR Continuous Update Project. Ann Oncol. 2017 Aug 1;28(8):1788-1802.


Fleiri nýir pistlar

15. des. 2023 : Jólamolar Krabba­meins­félagsins 2023

Njótum hátíðanna, hlúum að okkur og höfum það notalegt. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

14. des. 2023 : Bleikasta slaufan sló í gegn

Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, hönnuðir Bleiku slaufunni 2023, afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira