Ása Sigríður Þórisdóttir 13. mar. 2020

Gefðu þér gæðastund

Lóa Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi

Einstaklingar tjá okkur oft að þrátt fyrir allt hafi veikindin fært þeim ákveðna gjöf. Sú gjöf felur oftar en ekki í sér nýjan skilning á því sem lífið raunverulega snýst um.

Við göngum í gegnum óvenjulega tíma um þessar mundir. Margir eru tilneyddir að stíga út úr sínu venjubundna lífi, setja fyrirætlanir sínar á bið og vera heima hjá sér. Það er eðlilega mikil áskorun fyrir marga og undarleg staða enda eru flestir vanir því að vera í rútínu og hafa meira en nóg af verkefnum og markmiðum að vinna að. Þetta er þó reyndar nokkuð sem þeir einstaklingar sem greinast með krabbamein og aðrir sem takast á við heilsubrest þekkja vel. Það er, að þurfa að draga sig út úr hringiðu og verkefnum lífsins um stundarsakir eða til lengri tíma til að takast á við verkefni sem ekkert okkar langar að upplifa.

Við sem vinnum hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins hittum í gegnum starf okkar mikið af fólki sem er að takast á við veikindi og einnig aðstandendur þeirra. Fyrir okkur er alltaf gleðilegt þegar einstaklingar tjá okkur að þrátt fyrir allt hafi veikindin fært þeim ákveðna gjöf. Sú gjöf felur oftar en ekki í sér nýjan skilning á því sem lífið raunverulega snýst um.  Þetta er fólk sem hefur eftir sína lífsreynslu endurskoðað lífsgildin til framtíðar en þau gildi snúa oftar en ekki að því að minnka streitu í lífinu, hlúa betur að sér og sínum nánustu og umfram allt að njóta betur litlu hlutanna sem dagurinn í dag býður upp á.

Það er eðlilegt að margir upplifi óöryggi, hræðslu og jafnvel einmanaleika um þessar mundir. Það er því mikilvægt að huga vel að sér, til dæmis með því að efla með sér innri frið og styrk. Hugleiðsla og slökun snýst að mörgu leiti um þjálfun í að hægja á þeim hugsunum sem stanslaust sveima um hugann. Þetta gerum við með því draga athyglina frá áreitunum sem herja á okkur utan frá en beina þess í stað athygli og áhuga að kyrrðinni, styrknum og kærleikanum sem býr innra með okkur öllum, djúpt undir ölduróti hugans. 

Kannski er einmitt gott tækifæri núna í allri heimaverunni til að staldra aðeins við, skoða hvað það er sem við viljum hafa að leiðarljósi í lífi okkar, vinda ofan af uppsafnaðri streitu og hlúa að okkur. Hvaða aðferð það svo er sem hentar okkur til þess. Þannig erum við að efla heilsu okkar og komum sterkari til baka.

Alveg eins og það er mikilvægt að vera meðvituð um þá fæðu sem við setjum ofan í okkur er ekki síður mikilvægt að vera meðvituð um það sem við setjum ofan í hugann og bjóðum honum upp á. Kannski þurfum við ekki að lesa allar fréttir og allt sem gengur um veraldarvefinn varðandi Covid-19 veiruna. Reynum að hugsa um eitthvað uppbyggilegt og gleðilegt líka því að það sem við hugsum og það sem við hleypum að huganum, skapar gjarnan líðan okkar.

Hér á eftir kemur hugmynd að gæðastund sem gæti verið gott að setja inn í daglega rútínu fyrir þá sem eru mikið heima fyrir um þessar mundir og auðvitað alla aðra líka. 

Uppskrift að gæðastund

 

  • Finndu rólegan stað þar sem þú verður fyrir sem minnstu áreiti
  • Skapaðu þægilegt andrúmsloft til dæmis með því að kveikja á kerti, setja á slakandi tónlist eða að nota ilmolíu. Komdu þér vel fyrir í stólnum þannig að hryggjarsúlan sé bein og leyfðu handleggjum að hvíla slökum meðfram síðunum eða í kjöltu þér. Það getur verið gott að nota teppi og púða til að sem best fari um þig.
  • Byrjaðu á því að beina athyglinni að andardrættinum og fylgstu af áhuga með ferðalagi loftsins inn um nasirnar, niður í lungu og kvið og svo aftur til baka, án þess að reyna að breyta neinu. Kannski finnurðu mun á hitastigi loftsins þegar það fer inn um nefið samanborið við þegar það fer út um nefið aftur. Þú tekur eftir því hvernig líkaminn hreyfist með andardrættinum. Þú leyfir öllu að vera eins og það er. Þegar einhverjar hugsanir koma tekurðu eftir þeim, leyfir þeim að fljóta hjá eins og skýjabólstrum og dregur athyglina aftur að önduninni og einfaldleikanum.
  • Nú máttu finna hvernig allir vöðvar líkamans byrja að gefa meira og meira eftir með hverri fráöndun. Þú tekur eftir því hvar mesta spennan er og andar sérstaklega inn slökun á þann stað. Gefur eftir í öllum vöðvum, stórum sem smáum.
  • Þú mátt leggja hendi eða hendur á hjartað eða á þann stað á líkamanum sem hentar þér best. Þú finnur fyrir snertingu lófans, finnur fyrir þrýstingnum og kannski hitanum sem kemur frá honum. Finnur hvernig lófinn hreyfist með andardrættinum.
  • Hvað er það sem þú þarfnast mest á þessari stundu? Þú getur valið þér orð eins og styrkur, mildi, kærleikur, friður, mýkt, rósemd eða gleði og notað öndunina til að anda þeirri tilfinningu sem þú velur hægt og mjúklega að þér og svo aftur frá þér um hugann, hjartað og líkamann.
  • Gangi þér vel og mundu að æfingin skapar meistarann

Fleiri nýir pistlar

16. jún. 2021 : Eðli og mikilvægi leghálsskimunar

Undanfarið hefur verið mikil umræða um skimun fyrir leghálskrabbameini og getur verið áhugavert að kynna sér eðli og mikilvægi leghálsskimunar. 

Lesa meira

2. jún. 2021 : Með góðum sól­vörnum má koma í veg fyrir flest húð­krabba­mein

Passaðu upp á þig og þína í sólinni!

Lesa meira

31. maí 2021 : Einsettu þér að hætta tóbaksnotkun

Í dag er alþjóðlegi tóbakslausi dagurinn. Af því tilefni hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hrint úr vör árslangri alþjóðlegri herferð með nafnið  ,,Einsettu þér að hætta“ - "Commit to quit".

Lesa meira

30. maí 2021 : Evrópska krabba­meins­vikan: Meira en 100 ástæður til að hætta notkun tóbaks

Tóbak eykur líkur á mörgum tegundum krabbameina og ýmsu öðru heilsutjóni og dregur 8 milljónir manna til dauða á hverju ári. 

Lesa meira

26. maí 2021 : Evrópska krabba­meins­vikan: Að greinast með krabba­mein

Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Að greinast með krabbamein er flestum mikið áfall og erfitt getur verið að finna aftur jafnvægi í lífinu við hinar breyttu aðstæður.

Lesa meira