Guðmundur Pálsson 30. maí 2021

Evrópska krabba­meins­vikan: Meira en 100 ástæður til að hætta notkun tóbaks

Tóbak eykur líkur á mörgum tegundum krabbameina og ýmsu öðru heilsutjóni og dregur 8 milljónir manna til dauða á hverju ári. 

Tóbak eykur líkur á mörgum tegundum krabbameina og ýmsu öðru heilsutjóni og dregur 8 milljónir manna til dauða á hverju ári.

Þó vissulega hafi náðst frábær árangur á Íslandi í tóbaksvörnum á undanförnum áratugum, sérstaklega varðandi sígarettureykingar, er enn nokkur fjöldi sem neytir tóbaks í einhverju formi. 

Óhætt er að hvetja alla í þeim hópi til að hætta tóbaksnotkun og eru hér rúmlega 100 góðar ástæður: 

103 ástæður til að hætta notkun tóbaks

1. Reykingamenn eru í meiri áhættu gagnvart því að fá alvarlegri sýkingar og deyja af völdum COVID-19.

Tóbak hefur nánast samstundis áhrif á útlit þitt
2. Allt lyktar illa! Húðin á þér, allt heimili þitt, fötin þín, fingur og andardráttur.
3. Tóbak veldur gulnun tanna og aukinni tannsteinsmyndun.
4. Tóbaksreykingar og notkun reyklauss tóbaks veldur andremmu.
5. Tóbak veldur hrukkumyndun á húð og þú virðist eldast hraðar. Að hefja reykingar snemma veldur öldrun húðarinnar því prótín sem stuðla að teygjanleika húðarinnar eyðast, verulega dregur úr magni A-vítamíns og eðlilegu blóðflæði.
6. Hrukkur verða meira áberandi kringum varir og augu ásamt því að tóbak veldur því að húðin virkar leðurkennd og þurr.
7. Tóbaksreykingar auka hættuna á að þróa psóríasis sem er ósmitandi húðsjúkdómur með bólgueinkennum sem skilja eftir sig rauðleit kláðasvæði með útferð um allan líkamann.

Reykingar ógna ekki aðeins heilsu þinni – heldur einnig fjölskyldu þinnar og vina
8. Meira en ein milljón manna deyr á ári hverju af völdum óbeinna reykinga.
9. Reyklausir einstaklingar sem verða fyrir óbeinum reykingum eiga á hættu að fá lungnakrabbamein.
10. Sígarettur eru verulegur áhættuþáttur varðandi eldsvoða af slysförum og dauðsföllum af völdum þeirra.
11. Rafsígarettur útsetja reyklausa og aðra viðstadda fyrir nikótíni og öðrum skaðlegum efnum.
12. Verði maður fyrir reyk frá óbeinum reykingum getur það aukið hættuna á að þróa berklasýkingu yfir í virka sýkingu.
13. Tengsl eru á milli þess að verða fyrir óbeinum reykingum og sykursýki tvö.

Reykingar eða notkun rafsígaretta kringum börn setur heilsu þeirra og öryggi í hættu.
14. Börn reykingafólks líða af völdum minni lungnavirkni sem heldur áfram að hafa áhrif á þau í formi langvinnra öndunarfærasjúkdóma á fullorðinsaldri.
15. Ef börn komast í tæri við rafsígarettuvökva getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hætta er á að búnaðurinn leki, eða að börn gleypi vökvann.
16. Rafsígarettur hafa valdið alvarlegum áverkum, þar með talið brunasárum af völdum elds og sprenginga.
17. Börn á skólaaldri sem verða fyrir skaðlegum áhrifum óbeinna reykinga, eiga einnig á hættu að þróa með sér astma af völdum bólgna í öndunarvegi til lungna.
18. Börn undir 2 ára aldri sem verða fyrir óbeinum reykingum á heimili sínu, geta fengið miðeyrasýkingu sem getur valdið heyrnarskerðingu og jafnvel heyrnarleysi.
19. Að hætta reykingum dregur úr hættunni á mörgum sjúkdómum sem tengjast óbeinum reykingum hjá börnum, til dæmis öndunarfærasjúkdómum á borð við astma, en einnig eyrnasýkingum.

Tóbaksnotkun hefur í för með sér neikvæðar félagslegar afleiðingar.
20. Maður vill vera góð fyrirmynd fyrir börn sín, vini og ástvini.
21. Tóbaksnotkun getur haft neikvæð áhrif á félagsleg samskipti og sambönd.
22. Það að hætta merkir að engar hömlur eru lengur á hvert þú getur farið – þú getur átt bein samskipti við fólk, án þess að upplifa einangrun eða að þurfa að fara út til þess að reykja.
23. Það að hætta getur aukið afkastagetu þína – þú þarft ekki að gera hlé á því sem þú ert að gera til að fá þér að reykja sínkt og heilagt.

Reykingar kosta stórfé – þú gætir verið að nota peningana þína í mikilvægari hluti.
24. Ein rannsókn sýndi fram á að reykingamenn brenni að meðaltali 1.4 milljón bandaríkjadala í persónuleg útgjöld, þar með talið sígarettukaup, lækniskostnað og lægri laun af völdum reykinga og af því að verða fyrir óbeinum reykingum.
25. Tóbaksnotkun hefur slæm áhrif á heilsu og framleiðni starfsmanna og veldur því að þeir missa frekar daga úr vinnu.
26. Tóbaksnotkun er meðvirkandi þáttur í fátækt þar sem fólk eyðir ráðstöfunarfé sínu í tóbak í stað matar og húsaskjóls.
27. Tóbaksnotkun er íþyngjandi þáttur fyrir efnahagslíf heimsins, en u.þ.b. 1,4 trilljónir bandaríkjadala renna til meðhöndlunar sjúkdóma af völdum tóbaks og glataðs mannauðs af völdum tóbakstengdra sjúkdóma og dauðsfalla.

Reykingar draga úr frjósemi þinni
28. Reykingamenn eru meiri áhættu varðandi ófrjósemi. Að hætta reykingum eykur líkurnar á að verða barnshafandi og dregur úr hættunni á fyrirburafæðingum, lágri fæðingarþyngd og fósturláti.
29. Reykingar geta valdið risvandamálum. Reykingar draga úr blóðflæði til getnaðarlimsins sem veldur risvandamálum. Risvandamál eru algengari hjá reykingamönnum og hætta er á að vandinn verði viðvarandi eða jafnvel til frambúðar nema maðurinn hætti reykingum snemma á ævinni.
30. Reykingar draga einnig úr sáðfrumufjölda, hreyfanleika og lögun sáðfruma í mönnum.

Allar tegundir tóbaks eru banvænar
31. Á hverju ári deyja meira en 8 milljónir manna af völdum tóbaks.
32. Tóbak leiðir til dauða helmings þeirra sem nota það. Notkun tóbaks í hvaða formi sem er, rænir þig heilsunni og veldur hamlandi sjúkdómum.
33. Að reykja shisha(vatnspípu) er alveg jafn hættulegt og aðrar tegundir tóbaksnotkunar.
34. Munntóbak getur valdið munnkrabbameini, tannmissi, brúnum tannlit, hvítum skellum og gómsjúkdómum.
35. Nikótínið í reyklausu tóbaki ísogast auðveldar en við reykingar venjulegra sígaretta, sem veldur aukinni fíkn.

Þegar þú kaupir tóbak ertu að styðja fjárhagslega við iðnað sem arðrænir bændur og börn og heldur uppi áróðri fyrir vöru sem veldur sjúkdómum og dauða.
36. Starfsmenn við tóbaksræktun verða fyrir skaðlegum heilsufarsáhrifum af völdum nikótíns sem ísogast gegnum húðina, ásamt því að verða fyrir váhrifum af sterkum illgresiseyðandi efnum og tóbaksryki.
37. Í sumum ríkjum vinna börn við tóbaksræktun sem hefur ekki aðeins áhrif á heilsu þeirra, heldur einnig möguleika þeirra á að sækja skóla.
38. Tóbaksnotkun getur haft alvarleg áhrif á fátæka þar sem þeir eru í mun meiri hættu á að veikjast og deyja fyrir aldur fram af krabbameini, hjartasjúkdómum, öndunarfærasjúkdómum eða öðrum tóbakstengdum sjúkdómum, en einnig dregur tóbaksnotkun úr nauðsynlegum ráðstöfunartekjum og veldur viðbótarútgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu.
39. Mikill meirihluti þeirra sem starfa í tóbaksiðnaðinum hefur mjög lág laun, meðan stóru tóbaksfyrirtækin uppskera ríkulega.

Hitaðar tóbaksvörur eru skaðlegar heilsunni.
40. Hitaðar tóbaksvörur hafa í för með sér eitraðar gufur sem geta í mörgum tilvikum verið krabbameinsvaldandi.
41. Hitaðar tóbaksvörur eru í reynd tóbaksvörur og þar af leiðir að það að skipta úr hefðbundnum tóbaksvörum yfir í hitaðar tóbaksvörur jafngildir ekki því að hætta tóbaksnotkun.
42. Það eru ekki nægilegar sannanir til að styðja þá fullyrðingu að hitaðar tóbaksvörur séu minna skaðlegar en hefðbundnar sígarettur.

Rafsígarettur eru skaðlegar heilsunni og óöruggar
43. Börn og unglingar sem nota rafsígarettur tvöfalda hættuna á að reykja sígarettur síðar á ævinni.
44. Rafsígarettur auka áhættuna á hjartasjúkdómum og lungnavandamálum.
45. Nikótínið í rafsígarettum er mjög fíknivaldandi efni sem getur valdið skaða á heila barna í vexti.

Tóbaksnotkun, sér í lagi reykingar, veldur mæði.
46. Tóbaksnotkun er völd að 25% allra krabbameinsdauðsfalla í heiminum.
47. Reykingamenn eru í allt að 22 faldri hættu á að þróa með sér lungnakrabbamein á ævinni miðað við reyklausa. Tóbaksreykingar eru helsta orsök lungnakrabbameins og eru taldar valda meira en tveimur þriðju hlutum dauðsfalla af völdum lungnakrabbameins á heimsvísu.
48. Einn af hverjum fimm reykingamönnum mun þróa með sér langvinna lungnasjúkdóma á ævinni, sér í lagi fólk sem byrjar reykingar sem börn eða unglingar, þar sem tóbaksreykur dregur umtalsvert úr vexti og þroska lungna.
49. Reykingar geta ýtt undir astma hjá fullorðnum, dregið úr virkni þeirra, verið meðvirkandi þáttur í fötlun og aukið hættuna á alvarlegum astmaköstum þar sem bráðainnlagna er þörf.
50. Tóbaksreykingar meira en tvöfalda hættuna á að berklar þróist úr dvalaformi yfir í virka berkla og einnig eru þess dæmi að sjúkdómurinn þróist með alvarlegri hætti en við hefðbundna þróun sjúkdómsins. Um það bil fjórðungur mannkyns er með berkla í dvala.

Tóbak veldur hjartasjúkdómum
51. Aðeins nokkrar sígarettur á dag, reykingar af og til, eða að verða fyrir váhrifum af óbeinum reykingum eykur hættuna á hjartasjúkdómum.
52. Reykingamenn eru í allt að tvöfalt meiri hættu á að fá heilablóðfall og fjórfalt meiri hættu á að fá hjartasjúkdóma.
53. Tóbaksreykingar skaða slagæðar hjartans, valda uppbyggingu á skellum og þróun blóðtappa, sem aftur hindrar blóðflæði og leiðir á endanum til hjartaáfalla og heilablóðfalla.
54. Notkun tóbaks og tóbaksvara eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Tóbak veldur yfir 20 tegundum krabbameina
55. Reykingar og notkun reyklauss tóbaks veldur munnholskrabbameini, krabbameini í vörum, hálsi (í koki og barkakýli) og í vélinda.
56. Skurðaðgerð þar sem barkakýli er fjarlægt getur valdið því að setja þarf upp barkaraufarpípu í hálsinn til að gera sjúklingnum kleift að anda.
57. Reykingamenn eru í umtalsvert meiri hættu á að þróa með sér bráðahvítblæði í merg, krabbamein í nefi og nefholi, ristil- og endaþarmskrabbamein, nýrna-, lifrar-, bris-, maga- eða eggjastokkakrabbamein, ásamt krabba í neðri þvagfærum (þ.m.t. blöðru, þvagleiðara og nýraskjóðu).
58. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli tóbaksreykinga og aukinnar hættu á brjóstakrabbameini, einkum meðal stórreykingamanna og kvenna sem byrja reykingar áður en þær hefja barneignir.
59. Einnig er þekkt að reykingar geta aukið hættuna á leghálskrabbameini í konum sem bera HPV-vírusinn í sér.

Reykingamenn eru í meiri hættu á að tapa sjón og heyrn
60. Reykingar valda mörgum augnsjúkdómum sem, ef þeir eru ekki meðhöndlaðir, geta valdið varanlegum sjónmissi.
61. Reykingamenn eru í meiri hættu en reyklausir á að þróa með sér aldurstengda sjóndepilsrýrnun, en það veldur óafturkræfum sjónmissi.
62. Reykingamenn eru einnig í meiri hættu á að fá ský á augastein sem lokar fyrir ljós. Ský á augastein veldur sjónskerðingu og skurðaðgerð er eini valkosturinn til að öðlast sjón að nýju.
63. Ýmsar rannsóknir benda til þess að reykingar valdi einnig gláku, augnsjúkdómi sem eykur þrýsting í auganu og getur skaddað sjónina.
64. Fullorðnir reykingamenn eru líklegri til að missa heyrnina.

Tóbak skaðar nánast hvert einasta líffæri líkamans
65. Þeir sem reykja alla ævi lifa að meðaltali 10 árum skemur en aðrir.
66. Í hvert sinn sem sígarettureykur er sogaður niður í lungun berast eiturefni og krabbameinsvaldar í líkamann og 70 þessara efna eru þekktir krabbameinsvaldar.
67. Hættan á að fá sykursýki er meiri hjá reykingafólki.
68. Reykingar eru þekktur áhættuþáttur varðandi vitglöp, en það er flokkur sjúkdóma sem veldur andlegri hrörnun.
69. Alzheimers sjúkdómurinn er þekktasta form vitglapa og u.þ.b. 14% allra Alzheimers tilvika á heimsvísu er hægt að tengja við reykingar.
70. Konur sem reykja eru mun líklegri til að upplifa sársaukafullar blæðingar og alvarlegri tíðahvarfaeinkenni.
71. Tíðahvörf verða einu til fjórum árum fyrr hjá konum sem reykja vegna þess að reykingar draga úr framleiðslu eggja í eggjastokkunum, sem veldur minni frjósemi og í kjölfarið lækkun á magni kvenhormóna.
72. Tóbaksreykur dregur úr flæði súrefnis til vefja líkamans.
73. Tóbaksnotkun dregur úr blóðflæði, sem getur leitt til blóðþurrðardreps og aflimunar ef það er ekki meðhöndlað.
74. Tóbaksnotkun eykur hættuna á tannholdssjúkdómum, langvarandi bólgusjúkdómum sem valda eyðingu á gómum og eyðileggur kjálkabeinið sem veldur tannmissi.
75. Reykingamenn eru í mun meiri hættu en reyklausir á að lenda í vandamálum í kjölfar skurðaðgerða.
76. Erfiðara er fyrir reykingamenn að hætta notkun öndunarvéla. Það veldur því að innlagnir þeirra á bráðamóttökudeildir og sjúkrahúsdvöl er lengri, sem eykur hættuna á annars konar sýkingum.
77. Reykingamenn eru í meiri hættu á að þróa meltingarkvilla á borð við magasár, bólgusjúkdóma í þörmum sem tengjast kviðkrömpum, langvarandi niðurgangi, hita og blæðingum frá endaþarmi ásamt krabbameinum í meltingarvegi.
78. Reykingamenn eru líklegri til að fá beinþynningu, brotna auðveldar og lenda í endurteknum vandamálum á borð við seinkun á bata eða að batinn á sér alls ekki stað.
79. Ákveðnir efnisþættir í tóbaksreyk veikja ónæmiskerfið sem veldur því að reykingamenn eiga á hætta að fá lungnasjúkdóma.
80. Reykingamenn með erfðaþætti sem auka hættuna á sjálfsofnæmi eru í aukinni hættu á að fá ýmsa sjúkdóma á borð við liðagigt, Chrohns-sjúkdóm, heilahimnubólgu og sýkingar í kjölfar skurðaðgerða og krabbamein.
81. Reykingar valda aukinni hættu á fylgnisjúkdómum og ótímabærum dauðdaga fyrir ónæmissjúklinga með t.d. slímseigjusjúkdóm, heila- og mænusigg eða krabbamein.
82. Ónæmisbælandi áhrif tóbaks setja fólk með HIV í aukna hættu á að þróa með sér AIDS. Meðal reykingamanna með HIV er meðalstytting ævinnar 12 ár og þrír mánuðir, sem er meira en tvöföld stytting miðað við reyklausa einstaklinga með HIV.

Tóbaks- og nikótínnotkun getur skaðað barnið þitt
83. Tóbaksnotkun og að verða fyrir tóbaksreyk meðan á meðgöngu stendur, eykur líkurnar á fósturláti.
84. Konur sem reykja eða verða fyrir váhrifum af óbeinum reykingum meðan á meðgöngu stendur eru í aukinni hættu á fósturmissi.
85. Andvana fæðingar (fæðing fóstra sem látist hafa í móðurkviði) eru einnig algengari vegna súrefnisskorts hjá fóstrinu og afbrigðileika í fylgjum af völdum kolsýrings í tóbaksreyk og nikótíns í tóbaksreyk og reyklausu tóbaki.
86. Reykingar valda aukinni hættu á utanlegsþungun, sem getur haft banvænar afleiðingar fyrir móðurina.
87. Að hætta reykingum og forðast að verða fyrir óbeinum reykingum er sérstaklega mikilvægt fyrir konur á barnsburðaraldri sem hyggjast verða barnshafandi, sem og á meðan á meðgöngu stendur.
88. Rafsígarettur eru alvarleg ógn fyrir barnshafandi konur sem nota þær, þar sem þær geta valdið skaða á fóstrinu.
89. Börn kvenna sem reykja, nota reyklaust tóbak eða verða fyrir váhrifum af óbeinum reykingum meðan á meðgöngu stendur, eru í meiri hættu á að fæðast fyrir tímann og með lága fæðingarþyngd.

Tóbak mengar umhverfið
90. Ríkisstjórnir og sveitarstjórnir þurfa að greiða kostnað af hreinsun tóbaksrusls, ekki tóbaksfyrirtækin sjálf. Hættu tóbaksnotkun til að vernda umhverfið.
91. Sígarettustubbar eru ein algengasta tegund rusls sem hent er á heimsvísu og það algengasta sem endar á ströndum heimsins.
92. Hættuleg efni hafa greinst í sígarettustubbum – þar með talið arsen, blý, nikótín og formaldehýð. Þessi efni leka úr sígarettustubbum út í vatnsumhverfi og jarðveg.
93. Tóbakreykur leggur til mælanlegan skerf til mengunarstigs í borgum.
94. Kveikt er í flestum sígarettum með eldspýtum eða gaskveikjurum. Ef til dæmis ein eldspýta er notuð til að kveikja í tveimur sígarettum, þýðir það að þær sex trilljónir sígaretta sem reyktar eru á ári hverju myndu valda eyðingu u.þ.b. níu milljóna trjáa til að framleiða þessar þrjár trilljónir eldspýtna.
95. Rafsígarettur og hitaðar tóbaksvörur geta innihaldið rafhlöður sem þarfnast sérstakrar förgunar, ásamt íðefnum, umbúðum og öðrum ólífbrjótanlegum efnum.
96. Í dag eru meirihluti plasthylkja fyrir rafsígarettur hvorki endurnýtanleg né endurvinnanleg – fjölþjóðleg fyrirtæki leitast við að selja einnota hylki, líkast til í þeim tilgangi að auka söluna til endurkomukaupenda.
97. Útblástur frá tóbaksframleiðslu er talinn jafnast á við 3 milljónir flugferða yfir Atlantshafið.
98. Tóbaksreykur inniheldur þrjár tegundir gróðurhúsalofttegunda: kolmónoxíð, metan og nituroxíð sem menga loftið bæði innanhúss og utandyra.
99. Á heimsvísu eru lagðir u.þ.b. 200 þúsund hektarar lands undir tóbaksræktun og vinnslu þess á ári hverju.
100. Skógeyðing vegna tóbaksræktunar veldur margvíslegum alvarlegum afleiðingum fyrir umhverfið – þar með talið tapi á líffræðilegri fjölbreytni, jarðvegseyðingu og rýrnun, mengun vatns og aukningu á koltvísýringi í andrúmsloftinu.
101. Tóbaksræktun hefur alla jafna í för með sér umtalsverða efnanotkun – þar á meðal varnarefni, áburð og vaxtarstýriefni. Þessi efni geta lekið frá tóbaksræktarsvæðum og haft skaðleg áhrif á neysluvatn.
102. Fyrir hverjar 300 sígarettur sem framleiddar eru (u.þ.b. eitt og hálft karton), þarf eitt tré til þess eins að verka tóbakslaufið.
103. Sex þúsund trilljónir sígarettna eru framleiddar árlega úr tóbaksvörum, sem gera u.þ.b. 300 billjónir pakka (með 20 sígarettum í pakka). Ef við gefum okkur að hver tómur pakki vegi u.þ.b. sex grömm jafngildir þetta um 1,8 milljónum tonna af pakkningarusli sem samanstendur af pappír, bleki, sellófani, málmþynnum og lími. Ruslið frá þeim kartonum og pappakössum sem notaðir eru við dreifingu og pökkun bætist svo við og er árleg myndun rusls þá komin í að minnsta kosti 2 milljónir tonna.

Ávinningurinn af að hætta tóbaksnotkun kemur fram nánast samstundis.

Aðeins 20 mínútum eftir að reykingum lýkur, lækkar hjartslátturinn. Innan 12 tíma er kolsýringsmagn í blóði orðið eðlilegt. Eftir 2-12 vikur hefur blóðrás og lungnavirkni batnað. Eftir 1-9 mánuði hefur hósti og mæði minnkað. Að liðnum 5-15 árum hefur hættan á heilablóðfalli minnkað og er orðin á við það sem gerist hjá þeim sem aldrei hafa reykt. Innan tíu ára er u.þ.b. helmingi minni hætta á dauðsfalli af völdum lungnakrabbameins en hjá reykingafólki. Innan 15 ára er hættan á hjartasjúkdómum orðin sambærileg við hættuna hjá þeim sem aldrei hafa reykt.

(Þýtt fræðsluefni frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO.). 


Nú stendur yfir krabbameinsvika evrópskra krabbameinsfélaga. (European week against cancer). Þá vekja evrópsk krabbameinsfélög athygli á ýmsum þáttum sem skipta máli í því marghliða verkefni sem krabbamein er.



Fleiri nýir pistlar

15. des. 2023 : Jólamolar Krabba­meins­félagsins 2023

Njótum hátíðanna, hlúum að okkur og höfum það notalegt. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

14. des. 2023 : Bleikasta slaufan sló í gegn

Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, hönnuðir Bleiku slaufunni 2023, afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira