Birna Þórisdóttir 4. feb. 2020

Aukum hlut jurtafæðis – allt árið um kring

Fræðslupistill febrúar 2020: Matur spilar stórt hlutverk í lífi flestra. Hann er ekki bara eldsneyti líkamans heldur gegnir félagslegu hlutverki og tengist matarmenningu og hefðum. Hann er einnig einn af grunnstoðum heilsu.

*Eftirfarandi pistill birtist fyrst á vef Krabbameinsfélagsins á alþjóðadegi gegn krabbameinum 4. febrúar 2020.*

Alþjóðadagur gegn krabbameinum er tilvalinn til að taka skref í átt að betri heilsu fyrir sig og sína. Ég er mamma og ég ætla að borða hollan mat með fjölskyldunni í kvöld. Hvað ætlar þú að gera?

Radleggingar_EL

Ráðleggingum um mataræði fyrir fullorðna og börn frá embætti landlæknis er ætlað að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda, stuðla að góðri heilsu og vellíðan og minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum. Þær byggja á norrænum næringarráðleggingum ásamt öðrum rannsóknum á sambandi næringar og heilsu og niðurstöðum kannana um mataræði Íslendinga.

Wcrf_cancer_recommendationsVirtar stofnanir á sviði krabbameinsrannsókna gefa ráðleggingar um mataræði til að minnka líkur á krabbameinum. World Cancer Research Fund og American Institute for Cancer Research gefa saman út ráðleggingar og International Agency for Research on Cancer og Evrópsku krabbameinssamtökin sömuleiðis.

Ráðleggingar landlæknis (efsta mynd) og ráðleggingar WCRF og AICR (til vinstri).

Norrænu næringarráðleggingarnar sem og ráðleggingar krabbameinsrannsóknastofnananna byggja á kerfisbundnu mati á vísindarannsóknum og standa á sterkum vísindalegum stoðum. Þótt ólíkir hópar sérfræðinga vinni ráðleggingarnar, gerðir vísindarannsókna og heilsuþættir sem horft er til séu að einhverju leyti ólík eru niðurstöðurnar í grunninn þær sömu.

Uppistaðan í mataræðinu ætti að vera lítið unnin matvæli sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi: grænmeti, ávextir, ber, heilkornavörur, hnetur, fræ, baunir og önnur fæða úr jurtaríkinu. Flestir Íslendingar mættu auka neysluna á þessum matvörum. Inni í ráðleggingunum er svigrúm fyrir hóflega neyslu dýraafurða, svo sem fisks, kjöts, mjólkur og eggja, í mismiklu magni þó. Íslensku ráðleggingarnar mæla með fiskneyslu tvisvar til þrisvar í viku, en fiskur inniheldur mikilvæg næringarefni sem eru í fáum öðrum matvælum, svo sem joð, langar ómega-3 fitusýrur og D-vítamín. Æskilegt er að takmarka neyslu á rauðu kjöti (miða við að borða ekki meira en 350-500 grömm á viku af lamba-, nauta-, svína- og hrossakjöti) og halda neyslu á unnum kjötvörum og annarri unninni matvöru, salti og sykri í lágmarki.

Þó að hið vinsæla átak Veganúar sé búið þetta árið er um að gera að halda áfram að borða sem mest af lítið unnum matvælum úr jurtaríkinu sem eru rík af næringarefnum frá náttúrunnar hendi. Þannig fær líkaminn öll þau næringarefni sem hann þarf, við stuðlum að góðri heilsu og vellíðan, drögum úr líkum á krabbameinum, auk þess sem það er gott fyrir jörðina okkar. Að sjálfsögðu gerum við enn betur ef við hreyfum okkur líka reglulega og forðumst tóbak og áfengi. Fleiri leiðir til að minnka líkur á krabbameinum má sjá hér.

Alþjóðadagur gegn krabbameinum er í dag, 4. febrúar. Tilgangur dagsins er að hvetja til umbóta og eflingar á sviði forvarna, greiningar og meðferða gegn krabbameinum. Slagorð dagsins er „Ég er... og ég ætla...“ þar sem hverjum fyrir sig gefst færi á að lýsa sinni leið til að vinna gegn krabbameinum. 

Ég er næringarfræðingur og ég ætla að hvetja landsmenn til að auka hlut jurtafæðis – allt árið um kring. Ég er mamma og ég ætla að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín. Hvað ætlar þú að gera?

Meira um næringu á krabb.is:

EAT-Lancet

Summary Report EAT-Lancet hópsins, sem hofðir á samspil heilsu fólks og jarðarinnar í verkefninu “Healthy Diets from Sustainable Food Systems”, mynd 4 úr skýrslunni.

 

Radleggingar_EL

Ráðleggingar um mataræði frá Embætti landlæknis.

 

Wcrf_cancer_recommendations

Ráðleggingar til að minnka líkur á krabbameinum frá World Cancer Research Fund og American Institute for Cancer Research. 


Fleiri nýir pistlar

3. jan. 2021 : Sjálfskoðun brjósta - Þreifaðu brjóstin reglulega

Mælt er með að konur á öllum aldri skoði brjóstin reglulega. Þá átta þær sig á því hvað er eðlilegt og ef eitthvað breytist frá því síðast. 

Lesa meira

4. nóv. 2020 : Góðar svefnvenjur

Erla Björnsdóttir hjá Betri svefn hefur verið með svefnnámskeið á vegum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins hér gefur hún okkur nokkur góð ráð að góðum svefnvenjum.

Lesa meira

9. sep. 2020 : Ís­land í farar­broddi á heims­vísu varðandi góðan árangur skimunar fyrir krabba­meini í leg­hálsi

Íslandi er í hópi þeirra landa sem hafa lægsta dánartíðni í heiminum af völdum leghálskrabbameins, eða minna en 2 dauðsföll á ári á hverjar 100.000 konur.

Lesa meira

24. ágú. 2020 : Það sem við getum gert fyrir heilsuna okkar

Heilsusamlegur lífsstíll getur haft jákvæð áhrif á ónæmiskerfi líkamans og haft áhrif á hvernig við erum í stakk búin til að takast á við sjúkdóma.

Lesa meira

26. jún. 2020 : Betra að nota fisk og grænmeti á grillið

Fræðslupistill júní 2020: Nú er grilltíminn í hámarki og því tilvalið að kynna sér leiðir til að grilla á sem bestan máta með heilsuna í huga.

Lesa meira