Svona njóta leikskóla­börn sólarinnar á öruggan hátt

Sólarvarnir eru mikilvægar fyrir alla og sérstaklega börn sem eru viðkvæmari fyrir skaða af völdum sólar. Meðfylgjandi eru gátlistar um sólarvarnir leikskóla­barna fyrir annars vegar leikskóla og hins vegar foreldra, á íslensku, pólsku og ensku.

Eitt af markmiðum Krabbameins­félagsins er að fækka þeim sem fá krabbamein með öflugum forvörnum. Sólarvarnir skipta miklu máli fyrir alla og sérstaklega fyrir börn, sem eru viðkvæmari fyrir sólargeislum en fullorðnir, en skaði af völdum sólar getur leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni. 

Á Íslandi þarf að huga að sólarvörnum frá apríl til september. Sólin er sterkust kl. 13 og stór hluti varasamrar geislunar á sér stað milli kl. 10 og 16. Þetta er tíminn sem mörg börn eru í leikskóla og því mikilvægt að þar sé gætt vel að sólarvörnum.

Krabbameinsfélagið mælir ekki með eða á móti ákveðnum gerðum sólarvarnakrema, svo lengi sem þau eru með stuðulinn 30 til 50+, en bendir á að oft er hægt að leita ráða í apótekum.

Gátlisti fyrir leikskólann og foreldra: 

  • Við hugum að sólarvörnum frá apríl fram í september.
  • Pössum að börnin séu í fötum sem hylja axlir, bringu, handleggi og fótleggi.
  • Pössum að börnin séu með sólhatta/derhúfur og sólgleraugu.Mynd
  • Berum sólarvörn (stuðull 30 eða hærri), á börnin fyrir útiveru bæði fyrir og eftir hádegi og eftir þörfum (t.d. ef þau svitna, busla eða er þvegið).     
  • Berum sólarvörn á þar sem föt hylja ekki, s.s. andlit, eyru, hnakka, handarbök og mögulega hársvörð.
  • Tökum reglulega hlé frá sólinni og færum leikinn inn eða í skugga.
  • Munum að sólargeislar geta endurkastast frá vatni og sandi.
  • Pössum að börnin drekki nóg vatn í og eftir útiveru í sólinni.

- Verum góðar fyrirmyndir og verjum okkur sjálf fyrir sólinni -


Frekara efni um sólarvarnir: 

Birt í apríl 2021. Yfirfarið í júní 2023.


Var efnið hjálplegt?