„Ekkert til sem kallast holl sólbrúnka”

„Ekki er mjög gott að bæta fyrir síðasta sumar með því að steikja sig í sólinni í ár,“ sagði Birna Þórisdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu í Morgunútvarpinu á Rás tvö síðasta sumar. Ekkert sé til sem kallist holl sólbrúnka. 

Viðtal við Birnu Þórisdóttur, sérfræðing í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu, sem birtist á Ruv.is 28. júní 2019 .

„Ekki er mjög gott að bæta fyrir síðasta sumar með því að steikja sig í sólinni í ár,“ segir Birna Þórisdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. Ekkert sé til sem kallist holl sólbrúnka.

Brúnka er varnarviðbragð líkamans

Sólin hefur leikið við landsmenn undanfarnar vikur, fyrst á Suður- og Vesturlandi og nú lætur hún ljós sitt skína fyrir norðan og austan. Sólþyrstir Íslendingar hafa drukkið hana í sig og sumir sólbrunnið hressilega á leið sinni að brúnku. Birna var gestur Morgunútvarpsins á Rás tvö í morgun þar sem hún ræddi hættur tengdar sólinni og mikilvægi varna.

„Við [Krabbameinsfélagið] segjum, það er ekkert sem kallast holl sólbrúnka því þegar húðin verður brún, það er varnarviðbragð líkamans við sólinni. Útfjálubláu geislarnir eru að valda húðinni skaða, öldrun húðarinnar, og þessi húðskaði getur svo með tímanum leitt til húðkrabbameins og við vitum að fólk sem brennur mikið, sérstaklega á barnsaldri, er í aukinni hættu á að þróa með sér húðkrabbamein síðar meir. “

Sólarvörn ein og sér nægir ekki

Hún segir að allir eigi að bera á sig varnir og helst á enginn að liggja lengi í sólinni. Húðin sé þynnri á ýmsum stöðum, eins og til dæmis á bringunni, og þar með viðkvæmari fyrir húðskaða. Sólarvörnin ein og sér nægi aftur á móti ekki.

„Það er gott að hafa í huga að nota sólarvörn, svona sólarkrem, sem viðbót við aðrar leiðir til að verja sig í sólinni, vera í skugga þegar sólin er sterkust milli ellefu og fjögur á daginn. Hún er sterkust um hálf tvö hérna á Íslandi og vera í fatnaði sem hlífur öxlum og bringu og þessum viðkvæmu húðsvæðum.“

Hún segir að fólk þurfi að varast falskar varnir, í raun sé engin vörn góð nema hún hafi 30 í stuðli.

„Evrópsku krabbameinsfélögin segja að maður eigi ekki að nota undir 30 í stuðli og börn 50. Þau rök sem þau færa er að ef þú ert að nota minni vörn þá sértu með falska vörn, hún er ekki að verja þig nógu vel, þannig að þú heldur að þú sért í góðum málum og svo eru of mikið af geislum sólarinnar að komast i gegn.“

D-vítamín inntaka ekki gild ástæða fyrir sólböðum

Það tekur líkamann einungis örfáar mínútur að ná fram ráðlögðum dagsskammti af d-vítamínum úr sólinni. Birna segir allt eins hægt að fá þau vítamín úr fæðu, ekki þurfi sérstaklega að taka áhættu með því að liggja í sól til að uppfylla ráðlagðan dagsskammt.

„Það eru sömu geislar sólarinnar sem valda sólbrúnkunni og þessum frumuskemmdum mögulegum og sem láta húðina mynda d-vítamín. Sólarvörnin blokkar þetta hvort tveggja. Sumar stofnanir ráðleggja fólki að vera í 15-30 mínútur í sól án sólarvarna til þess að mynda dagsskammtinn af d- vítamíni. Umfram það myndarðu ekki meira d-vítamín. Þá ertu kominn með hámarks skammt dagsins og þá ertu bara farinn að valda skaða og ekki að taka neina kosti úr sólinni.“


Var efnið hjálplegt?