Hugsanir

Hugrækt og andleg heilsa

Hugrækt felst í því að beina hlutlausri athygli aftur og aftur að föstu viðfangsefni. Algengast er að nota andardráttinn því hann er alltaf til staðar.

Að vera við góða andlega heilsu getur aukið velgengni í daglegu lífi og vinnu, bætt samskipti og aukið heilbrigði almennt. Einnig hefur félagslegt net mikið að segja um líðan okkar, eins og að eiga einhvern að sem maður getur leitað til öllum stundum. Þá skiptir einnig máli að komast hjá streituvaldandi aðstæðum í daglegu lífi og hafa jákvætt lífsviðhorf. Ein leið til að auka vellíðan er hugrækt og hér er bent á aðferð til að vera meðvitaður um hugsanir sínar og finna leiðir til að nýta þær til jákvæðra breytinga. Hugrækt gerir manni betur kleift að takast á við hvers konar verkefni eða áskoranir í daglegu líf. Rannsóknir hafa sýnt að með reglulegri hugrækt eflist starfsemi vinstri hluta framheilans þar sem talið er að vellíðunartilfinningin eigi rætur sínar. Regluleg hugrækt virðist einnig hækka sársaukaþröskuld og efla þol gegn líkamlegum sársauka.

Hugrækt felst í því að beina hlutlausri athygli aftur og aftur að föstu viðfangsefni. Algengast er að nota andardráttinn því hann er alltaf til staðar. Þessi þjálfun leiðir hægt og rólega til þess að við förum að taka eftir því sem er að gerast í huganum. Smám saman hættum við að vera gagntekin af hugsunum okkar og getum horft hlutlaust á þær, jafnvel eins og við séum aðeins fyrir ofan það sem gerist í huga okkar. Erfiðar tilfinningar og sársauki minnka þegar við hættum að streitast gegn óæskilegum hugsunum og horfumst í stað þess sátt í augu við það sem við upplifum. Við sættum okkur við að heimurinn tekur breytingum og að við tökum breytingum.

Æfing fyrir hugrækt

  • Taktu frá 5-10 mínútur á dag, helst á sama tíma dags.
  • Finndu góðan stað þar sem ekki er von á truflun.
  • Sittu á púða með krosslagða fætur eða á stól sem er ekki of mjúkur og með beint bak. Hafðu hendur í skauti eða láttu þær hvíla á lærum. Horfðu mjúklega á punkt á gólfinu undir um það bil 45° horni eða hafðu augun lokuð.

Beindu athyglinni mjúklega en ákveðið að flæði hugans. Dragðu andann þrisvar djúpt og rólega og gerðu eftirfarandi:

  • Útöndun 1 – slepptu öllum dæmandi hugsunum.
  • Útöndun 2 – slepptu öllum föstum hugsunum.
  • Útöndun 3 – slepptu öllum öðrum hugsunum.

Þegar við sleppum ákveðinni hugsun er ágætt að ímynda sér að við látum hana á tiltekinn stað þar sem fer vel um hana, t.d. á fallegan stað uppi í sveit eða að við bjóðum henni sæti í stofunni.

  • Finndu fyrir allri skynjun, hvernig sitjandinn snertir undirlagið, taktu efir höndum, fótum, hljóðum úr umhverfinu og sársauka ef hann er til staðar.
  • Leyfðu öllu að vera eins og það er en settu ekki orð á skynjunina. Upplifðu án hugtaka.
  • Sittu nú dálitla stund án þess að reyna að gera neitt. Bara vera.
  • Taktu eftir sérhverjum andardrætti af alúð, vertu þolinmóður og sáttur. Reyndu að finna fyrir hinni tæru, hlutlausu athygli sem er alltaf til staðar.

Ekki missa móðinn þótt þér finnist þú ekki ná árangri. Sú tilfinning getur komið upp einmitt þegar við erum farin að þróast í rétta átt vegna æfingarinnar, einfaldlega vegna aukinnar hæfni til að taka eftir.



Var efnið hjálplegt?