Blöðruhálskirtils­krabbamein

Taktu prófið

Kannaðu þekkingu þína á ýmsum þáttum varðandi krabbamein í blöðruhálskirtli. 

Taktu prófið! 



1Blöðruhálskirtils­krabbamein greinist eingöngu hjá körlum sem komnir eru yfir fimmtugt.


Rétta svarið er: "Rangt"

Blöðruhálskirtilskrabbamein getur greinst hjá karlmönnum yngri en 50 ára en það er þó sjaldgæft. Um 3-4 karlar greinast árlega undir þeim aldri. Líkur á að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein aukast eftir 50 ára aldur og um 6 af hverjum 10 sem greinast eru eldri en 65 ára.


2Krabbamein í blöðruhálskirtli leiðir stundum til erfiðleika við að losa þvag. 

Rétta svarið er: "Rétt"

Blöðruhálskirtilskrabbamein á byrjunarstigum er oftast einkennalaust en eftir því sem meinið þróast getur orðið vart við erfiðleika við að losa þvag (pissa), þvagbunan getur orðið kraftlítil og þvaglát tíðari en áður. Einnig getur sést blóð í þvagi og á síðari stigum sjúkdómsins eru stundum slappleiki og beinverkir ákveðin einkenni.

Aðrir sjúkdómar geta einnig valdið sömu einkennum. Til dæmis er góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli mun algengari orsök vandamála við þvaglát en blöðruhálskirtilskrabbamein. Engu að síður er mikilvægt að leita til læknis ef einhverra þessara einkenna verður vart svo að hægt sé að greina orsök og hefja meðferð sé þess þörf. 


3Blöðruhálskirtils­krabbamein er algengasta krabbameinið hjá íslenskum körlum.

Rétta svarið er: "Rétt"

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá íslenskum körlum. Á hverju ári greinast að meðaltali 202 karlar og um 57 deyja af völdum sjúkdómsins. Í lok árs 2019 voru 2.404 karlar á lífi sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli.


4Karlar sem greinast með blöðruháls­kirtilskrabbamein þurfa tafarlaust að gangast undir meðferð.

Rétta svarið er: "Rangt"

Í flestum tilfellum greinist krabbamein í blöðruhálskirtli á frumstigi en þá er meinið lítið og hefur ekki dreift sér. Áður en meðferð er ákveðin þarf að meta marga mikilvæga þætti svo sem aldur, almennt heilsufar og líkur á að krabbameinið muni valda skaða. Einnig ætti að huga að og meta mögulega fylgikvilla meðferðar. Ef krabbameinið vex hægt þá velja margir virkt eftirlit í stað meðferðar sem kann að leiða til fylgikvilla.

Virkt eftirlit þýðir að fylgst er náið með framvindu sjúkdómsins með reglulegum blóðrannsóknum, mælingu á PSA-gildi (prostate-specific antigen), þreifingu á blöðruhálskirtli um endaþarm og ómskoðun til að mæla hvort krabbameinið sé að stækka. Einnig eru stundum tekin vefjasýni úr blöðruhálskirtli. Komi í ljós að meinið sé að stækka er farið yfir hvaða meðferðaleiðir meðferðar henta.


5Allir karlmenn eiga að fara í skoðun vegna blöðruháls­kirtilskrabbameins.

Rétta svarið er: "Rangt"

Það fer eftir einkennum og ættarsögu hvort mælt er með því að fara í skoðun á blöðruhálskirtli. Ráðlagt er að hver og einn ræði við sinn lækni um hvort ástæða sé til að fara í skoðun vegna krabbameins í blöðruhálskirtili. Mikilvægt er að vera vel upplýstur um óvissu, áhættu og mögulegan ávinning af slíkri skoðun. Karlmenn ættu ekki að fara í slíka skoðun án þess að afla sér upplýsinga áður.

Mat á hvort rétt sé að fara í skoðun ætti að fara fram hjá þeim körlum sem eru orðnir 50 ára og eru í meðaláhættu með að fá blöðruhálskirtilskrabbamein.

Fyrir þá sem eru í aukinni áhættu með að fá blöðruhálskrabbamein ætti mat á skoðun að fara fram frá og með 45 ára aldri. Þeir sem eru í aukinni áhættu eru einkum karlmenn sem eiga náinn ættingja (föður, bróður, son) sem greinst hefur með blöðruhálskrabbamein yngri en 65 ára.

Þeir sem eiga náinn ættingja sem greinst hefur með blöðruhálskrabbamein fyrir fimmtugt ættu að ræða við lækni um slíka skoðun frá og með 40 ára aldri.


6Eiga allir karlmenn á ákveðnum aldri að láta mæla PSA-gildi í blóði?

Rétta svarið er: "Rangt"

Ekki er ráðlagt að mæla PSA hjá einkennalausum körlum því þá eru líkur á að greina hægvaxandi æxli sem hefði aldrei valdið viðkomandi skaða og getur leitt til þess að hann gangist undir meðferð sem getur haft alvarlega fylgikvilla. Margt getur haft áhrif á PSA-gildi. PSA-gildi hækkar oftast við blöðruhálskirtilskrabbamein og getur einnig hækkað við aðra sjúkdóma eins og bólgur eða góðkynja stækkun í kirtlinum og við áreynslu. PSA-gildi er þó ekki alltaf hækkað við krabbamein í blöðruhálskirtli, þ.e. karlar með lágt PSA-gildi geta haft sjúkdóminn.

Annað gildir um þá sem eru með einkenni frá þvagvegum. Þá er venjulega gerð þreifing á blöðruhálskirtlinum um endaþarm og tekin blóðprufa til að mæla PSA-gildi.


7Það er ekkert hægt að gera til að minnka líkur á að fá blöðruháls­kirtilskrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

Þó svo að orsakir blöðruhálskirtilskrabbameins sé ekki þekktar að fullu er margt hægt að gera til að minnka líkurnar á að fá sjúkdóminn. Auk þess að leita til læknis ef náinn ættingi (faðir, bróðir, sonur) hefur greinst með sjúkdóminn er talið að lífshættir eigi einhvern þátt í myndun sjúkdómsins.

Eftirfarandi þættir geta mögulega minnkað líkur á að fá sjúkdóminn:

  • Reykja ekki
  • Gæta að því að vera ekki of þungur.
  • Stunda reglubundna hreyfingu.
  • Takmarka neyslu á hitaeiningaríkum mat og drykk.
  • Borða að minnsta kosti fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag.
  • Velja frekar heilkorn en fínkorna vörur.
  • Takmarka neyslu á rauðu kjöti og borða sem minnst af unnum kjötvörum.
  • Þeim sem neyta á annað borð áfengis er ráðlagt að drekka í hófi.

8Að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli hefur slæm áhrif á lífshorfur.

Rétta svarið er: "Rangt"

 Flestir karlar sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli hafa góðar lífshorfur. Um 90% þeirra sem greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli lifa í fimm ár eða lengur en fyrir fjórum áratugum var þetta hlutfall um 35%.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er ekki einsleitur sjúkdómur. Um fimmtungur þeirra sem greinast eru með alvarlegan eða illvígan sjúkdóm og hafa verri horfur en þeir sem greinast með staðbundinn sjúkdóm. Jafnvel þeir sem hafa alvarlegan sjúkdóm geta vænst þess að lifa í fjölda ára með sjúkdóminn þar sem oft og tíðum er hægt að halda sjúkdómnum í skefjum með lyfjameðferð.

Lestu meira um krabbamein í blöðruhálskirtli hér



Var efnið hjálplegt?