© Mats Wibe Lund

Eldri

Starfsemi 2016-2017

Starfssvæði Krabbameinsfélags Austurlands er víðfeðmt og nær yfir Vopnafjörð, Borgarfjörð eystra, Seyðisfjörð, Fljótsdalshrepp og Fljótsdalshérað. Helstu verkefni félagsins eru eftirfarandi: Aðstoð við krabbameinsgreinda einstaklinga sem þurfa að ferðast frá heimabyggð og dvelja langdvölum að heiman vegna meðferðar. Félagið tekur þátt í og greiðir fyrir félagsmenn kostnað við húsnæði í íbúðum eða á sjúkrahóteli eftir því sem við á hverju sinni. Kostnaður vegna húsnæðis meðan á krabbameinsmeðferð stendur yfir hefur aukist frá því árið á undan og er nú um það bil 50% af félagsgjöldunum.

Krabbameinsfélag Austurlands hefur nú um tveggja ára skeið rekið þjónustuskrifstofu í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands, StarfA, þar sem skjólstæðingum félagsins og aðstandendum býðst að fá afnot af öllum þeim úrræðum sem StarfA hefur að bjóða, þeim að kostnaðarlausu. Í þeim úrræðum má til að mynda nefna slökun, jóga, fyrirlestra um lýðheilsu og margt fleira. Ráðgjafi á vegum félagsins er til viðtals og ráðgjafar á skrifstofunni á þriðjudögum en starfsfólk StarfA aðra daga vikunnar. Kostnaður við þessa starfsemi er langt umfram félagsgjöld og styrk úr velunnarasjóðnum á síðasta ári en hann nam 500.000 kr. Til þess að brúa það bil sem til þurfti var efnt til góðgerðarkvölds í Valaskjálf 2. apríl 2016. Undirtektir voru mjög góðar. Fjöldi listamanna kom fram að kostnaðarlausu og eigandi Valaskjálfar lagði einnig til húsnæði og léttar veitingar. Segja má að góðgerðarkvöldið hafi komið fjárhag félagsins fyrir vind að þessu sinni.

Félagið hefur eins og undanfarin ár í samvinnu við Krabbameinsfélag Austfjarða tekið þátt í hvíldarhelgi á Eiðum fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hvíldarhelgin tókst afburðavel og það voru glaðir og ánægðir gestir sem héldu heimleiðis í helgarlok.

Alfreð Steinar Rafnsson.

Starfsemi 2015-2016

Á aðalfundi Krabbameinsfélags Austurlands í apríl 2015 var samþykkt að halda áfram þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta aðalfundi og ganga frá samstarfssamningi við Starfsendurhæfingu Austurlands og koma upp sameiginlegri þjónustumiðstöð á Egilsstöðum. Haldnir voru nokkrir fundir með framkvæmdastjóra StarfA sem leiddi til þess að undirritaður var samstarfsamningur milli félaganna og hófst starfsemi í húsnæði að Miðvangi 1-3 í ágúst.

Ljóst var strax í upphafi að kostnaður við slíka starfsemi væri félaginu erfiður og að félagsgjöld hrykkju ekki til að brúa kostnað við starfsemina nema meira kæmi til en árgjöld félagsmanna. Sótt var um styrk í velunnarsjóð Krabbameinsfélags Íslands sem úthlutaði félaginu 500.000 kr., sem er um 40% af húsaleigukostnaði á ársgrundvelli. Ljóst er að fara þarf fram öflug fjáröflun til þess að félaginu heppnist að ná tilgangi sínum. Helstu rök fyrir slíku samstarfi er að erfitt er fyrir lítil félög á landsbyggðinni að halda uppi þjónustu hvert fyrir sig, sem er tilgangur félaganna, þar sem oft eru fáir félagsmenn sem sækja þjónustuna, en saman verðum við stærri hópur og auðveldara að reka starfsemi sem þessa, því hún er svo sannarlega mikilvæg, því hver og einn skiptir máli.

Mikil samlegðaráhrif eru fólgin í þessu samstarfi við starfsendurhæfinguna. Þjónustan byggir að mestu leyti á sama grunni, heildstæðri endurhæfingu, samveru, stuðning, og virkni en með sérhæfingu á hverju sviði fyrir sig. Boðið er upp á fjölbreytt, reglulegt framboð heilsutengdra úrræða í nærsamfélagi. Þar má nefna heilsueflingu, hreyfingu, slökun, jóga, sjálfseflingu í formi námskeiða og fræðslu, vinnusmiðju og stuðingshópa/jafningjafræðslu.

Allir eru jú að stefna að sama marki, efla heilsu og líðan. Markhópur Krabbameinsfélagsins eru einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einstaklingar sem þurfa fyrst og fremst á því að halda að rjúfa einangrun og koma skipulagi á daglegt líf sitt í formi félagslegrar samveru, stuðnings, virkni og sjálfseflingu, uppbyggingu að halda, bæta líkamlega og andlega heilsu og líðan. Með þessu samstarfi fást einstaklega góðir leiðbeinendur og fagfólk með okkur, án þeirra væri ekki hægt að reka starfsemi sem þessa. Ávinningur af slíku samstarfi félagsins við StarfA eða útvíkkun á starfseminni er talinn vera mikill svo sem fleiri þátttakendur og breiðari hópur þar sem hópeflismátturinn eykst sem hefur gífulega mikið vægi í endurhæfingu. Að fá stuðning og hvatningu. Að hafa það gaman saman, enn fjölbreyttari þjónusta og meira líf. Starfsemi sem þessi er gríðar mikilvæg, m.a. er varðar eftirfylgni, þegar einstaklingar koma úr meðferð frá Reykjavík, Akureyri og víðar.

Það er ekki nóg að þjónustan sé til staðar – það þarf að nýta hana, annars leggst hún af. Anna Alexandersdóttir iðjuþjálfi hefur haldið utan um sérhæfða þjónustu fyrir Krabbameinsfélag Austurlands frá því að þetta samstarf hófst og hefur haft viðveru á skrifstofunni síðdegis alla þriðjudaga. Aðra daga eru starfsmenn StarfA tilbúnir að aðstoða eftir þörfum. 

Undanfarin ár hafa Krabbameinsfélag Austurlands og Krabbameinsfélag Austfjarða rekið sameiginlega skrifstofu á Reyðarfirði. Með tilkomu hinar nýju aðstöðu á Egilsstöðum var ekki grundvöllur fyrir sameigin-legri skrifstofu á Reyðarfirði lengur. Krabbameinsfélag Austurlands þakkar fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og vill viðhalda ánægjulegu samstarfi um hvíldarhelgina á Eiðum eins og undanfarin ár.

Alfreð Steinar Rafnsson.

Starfsemi 2014-2015

Á aðalfundi Krabbameinsfélags Austurlands 2014 var stjórn félagsins falið að hefja viðræður við Starfsendurhæfingu Austurlands (StarfA) um samstarf og námskeiðahald fyrir skjólstæðinga félagsins.

Mikil þörf er á aðstoð við krabbameinsgreinda einstaklinga og fjölskyldur þeirra á svæði félagsins, en ýmis vandamál hafa orðið þess valdandi að ekki hefur tekist að þjóna þessu fólki sem skyldi og má til dæmis nefna eftirfarandi: 1. Mikill kostnaður er í því fólginn að fá aðkeypta þjónustu af höfuðborgarsvæðinu og ekki alltaf til reiðu þegar leitast hefur verið eftir því. 2. Svæði félagsins tekur yfir stórt svæði og því getur komið upp sú staða að auglýst námskeið nái ekki nægjanlegum fjölda vegna samgönguerfiðleika á svæðinu. 3. Mikil þörf er á því að komið sé upp aðstöðu fyrir skjólstæðinga félagsins, óháð því hvort námskeið eða endurhæfing standi yfir. Það var álit stjórnar að útvega þyrfti húsnæði þar sem skjólstæðingar félagsins geti komið saman og rætt sín mál í huggulegu og þægilegu umhverfi.

Með hliðsjón af því sem sett var fram hér að framan hefur stjórn Krabbameinsfélags Austurlands gert samstarfsamning við StarfA sem felur í sér að skjólstæðingar félagsins hafa aðgang af öllum þeim námskeiðum sem Starfsendurhæfingin rekur og skjólstæðingar félagsins kjósa sér. Undirbúningur að starfseminni er þegar hafinn og búið að festa húsnæði fyrir starfsemina og stefnt er af því að formleg opnun verði 1. ágúst næstkomandi. Það er skoðun félagsins og StarfA að þörf sé á samstarfi við önnur félög sem eru á félagsvæðinu og hafa einnig á stefnuskrá sinni að aðstoða sína félagsmenn hver svo sem sjúkdómurinn er.

Öll eiga þessi félög sameiginlegt að fjárskortur hamlar því að geta þjónað sínum félagsmönnum eins og þau vildu gera, en með samstarfi þessara félaga má ná saman sterkri heild sem kemur öllum til góða. Nú þegar hafa farið fram óformlegar viðræður við önnur félög varðandi þessi mál sem kynnt verða. Allir þeir sem rætt hefur verið við eru sammála um að sameinaðir stöndum við, en sundraðir föllum við. Rétt er að geta þess að þegar Oddfellow-reglan frétti af fyrirhuguðu verkefni ákvað kvennadeild reglunnar að færa félaginu að gjöf fartölvu til notkunar í væntanlegri aðstöðu félagsins.

Á formannafundi krabbameinsfélaganna á Akureyri í fyrrahaust kom það skýrt fram hjá gjaldkera Krabbameinsfélags Íslands og formanni úthlutunarnefndar velunnarasjóðsins, Sigurði P. Sigmundssyni, að hann vildi gjarnan sjá nýjungar í umsóknum í velunnarsjóðinn. Í trausti þess að þessi skoðun sé enn í fullu gildi hefur verið sótt um styrk fyrir þetta tilraunaverkefni til sjóðsins.

Krabbameinsfélag Austurlands er í samstarfi við Krabbameinsfélag Austfjarða um rekstur þjónustuskrifstofu á Reyðarfirði. Helstu útgjaldaliðir félagsins til þessa hefur verið hlutdeild í kostnaði við skrifstofuna á Reyðarfirði og fjárhagsaðstoð við sjúklinga vegna dvalar í Reykjavík meðan á meðferð stendur.

Skráðir félagar í Krabbameinsfélagi Austurlands voru um síðustu áramót 154. Gera þarf gangskör að því að fjölga félögum.

Alfreð Steinar Rafnsson. 


Var efnið hjálplegt?