31.05 2011

Ristilkrabbamein: Fylgist með einkennum

Tíðni krabbameins í ristli og endaþarmi hefur aukist mikið á Íslandi síðastliðna hálfa öld. Þó framfarir hafi orðið í meðferð er sjúkdómurinn ekki að greinast á lægri stigum en áður og því miður er það svo að krabbameinið greinist allt of oft á því stigi sem það er ólæknandi. Margir samverkandi þættir gera það að verkum. Bæði getur verið um að ræða að sjúklingar dragi að bregðast við einkennum og að heilbrigðisstarfsfólk dragi að bregðast við kvörtunum frá sjúklingum. Lækning og batahorfur eru betri því fyrr sem sjúkdómurinn greinist. 

Einkenni

Ég hef að undanförnu verið að rannsaka hvaða einkenni það voru sem leiddu til þess að einstaklingar greindust með krabbamein í ristli á Íslandi. Það hættumerki sem allir ættu að vera vakandi fyrir alltaf er blóð í hægðum. Bæði ferskt og sýnilegt með berum augum og svo svartar hægðir, sem geta orsakast af blæðingu ofar í meltingarveginum. Sá böggull fylgir skammrifi að blóð í hægðum er mjög algengt og kemur í flestum tilfellum frá saklausri gylliniæð eða afrifu. Mælt er með að allar blæðingar frá endaþarmi séu teknar alvarlega og þær þarfnist læknisskoðunar því einn af hverjum tíu geti verið með ristil- eða endaþarmskrabbamein, sem í raun réttlæti fulla skoðun með ristilspeglun.

Kviðverkir eru eitt algengasta birtingareinkenni sjúkdómsins. Verkirnir geta verið breytilegir að gerð, styrk og staðsetningu. Á fyrri stigum sjúkdómsins eru þeir oft vægir, óljósir og illa staðsettir en þeir geta líka verið afgerandi og kveisukenndir og tengst fæðuinntöku á einn eða annan hátt. Verkir geta líka stafað af því að meltingarvegurinn er að stíflast og þá eru þeir venjulega svo slæmir að viðkomandi ber ekki af sér. Það er það sama uppi á teningnum með kviðverki og blóð í hægðum, þeir geta átt sér hversdagslegar skýringar og eru mjög algeng kvörtun í heilsugæslu.

Breytingar á hægðavenjum er önnur algeng birtingarmynd ristil- og endaþarmskrabbameins. Á fyrri stigum eru oft aðeins minni háttar breytingar á tíðni hægðalosunar en einnig geta verið breytingar á stærð, lögun og þéttleika. Staðsetning krabbameins hefur mikið um þetta að segja. Æxli ofarlega í ristlinum gefa seinna þessi einkenni en þar er innihald ristilsins þunnfljótandi og kemst hæglega framhjá fyrirferð. Sjúkdómur neðarlega í ristlinum eða í endaþarmi gefur fyrr merki um það ef einhver fyrirferð er til staðar. Líkaminn reynir að aðlagast öllum breytingum sem á honum verða og oft verða hægðirnar að tíðum niðurgangi ef fyrirstaða er í meltingarveginum.

Sífelld hægðaþörf eða óþægindi við og eftir hægðalosun geta verið merki þess að æxli sé að þrýsta á taugar sem stjórna hægðalosun. Þessi einkenni eru algengari ef æxli er í endaþarmi eða neðarlega í ristli og kannski ekki endilega eitthvað sem fólk er að hafa orð á svona dags daglega.

Almenn einkenni um lasleika af einhverju tagi, eins og þreyta, slen, minnkað úthald, megrun, hitaslæðingur af óþekktum uppruna og nætursviti geta verið merki þess að illkynja sjúkdómur sé til staðar. Þetta geta þó allt verið merki þess að eitthvað allt annað sé á ferðinni. Séu þessi einkenni til staðar hjá þeim sem greinist með ristil- eða endaþarmskrabbamein er þó líklegt að um langt genginn sjúkdóm sé að ræða. Oft eru sjúklingar orðnir blóðlausir þegar þeir greinast og eru þeir einmitt að greinast vegna þess. En langvarandi blæðingum sem seytla frá æxlum í meltingarvegi fylgir blóðleysi. Þetta gerist gjarnan á löngum tíma og með ólíkindum hvað líkaminn aðlagast vel öllum breytingum sem laumast að honum hægt og hljóðlega.

Margir greinast með ristil- og endaþarmskrabbamein fyrir tilviljun eða vegna annarra sjúkdóma. Þeir reynast þó oft vera með einhver ofantalinna einkenna þegar sjúkrasaga er skoðuð án þess að hafa leitað sér læknis vegna þeirra. Þetta segir okkur að flestir eru ekkert að kvarta að óþörfu um þessi einkenni, enda kannski eitthvað sem fólk er alla jafna ekkert að bera á torg. Hagstæðast er þó ef ristil- og endaþarmskrabbamein er einkennalaust við greiningu. Þá er líklegast að meinið sé skammt á veg komið og hægt að komast fyrir það. 

Það er í það minnsta góð forvörn að vera meðvitaður um eigin líkama og vakandi fyrir öllum breytingum sem verða á starfssemi hans og bregðast við þeim af skynsemi. Það kostar ekki neitt en getur skilið á milli feigs og ófeigs.

Hér hefur verið rætt um einkenni krabbameins í ristli og endaþarmi. Það er engin ástæða til að bíða eftir einkennum því unnt er að greina sjúkdóminn mun fyrr með skimun. Öllum sem náð hafa fimmtugsaldri er ráðlagt að fara í skoðun til að minnka líkur á krabbameini í ristli og endaþarmi á alvarlegu stigi. Er ekki besta fimmtugsafmælisgjöfin til þín og þeirra sem þér þykir vænt um að taka af skarið og panta tíma í skoðun?

Kristín K. Alexíusdóttir, hjúkrunarfræðingurSkipta um leturstærð


Leit