Smáþarma­krabbamein

Þó smáþarmarnir taki yfir 75% af lengd meltingarvegarins þá eru æxli upprunnin þar sjaldgæf og aðeins um 3-6% æxla í meltingarvegi, en innan við 10 einstaklingar greinast árlega með krabbamein í smáþörmum á Íslandi. Sjúkdómurinn er algengari í körlum og í eldri einstaklingum.

Hvað er smáþarmakrabbamein?

Smáþarmarnir, sem eru um fimm metrar á lengd, skiptast í þrjá hluta: Skeifugörn (duodenum), ásgörn (jejunum) og dausgörn (ileum). Í ás- og dausgarnarhluta smágirnisins eru flest næringarefnin úr fæðunni brotin niður í svo litlar sameindir að þær geta frásogast í gegnum þarmavegginn og út í blóðrás. Sameindirnar eru þannig teknar upp í blóðið í æðum smáþarmanna og eru síðan fluttar til lifrar og fruma líkamans. Niðurbrot næringarefna verður fyrir verkun þeirra efnahvata sem m.a. brisið framleiðir og tæmir út í skeifugörnina.

Krabbamein í smáþörmunum geta verið af mismunandi uppruna en þau helstu eru taugainnirtlaæxli (þ.m.t. krabbalíki), kirtilkrabbamein, eitilfrumukrabbamein og sarkmein.

Krabbalíki (carcinoid æxli) á upptök sín í hormónamyndandi frumum og eru þessi æxli algengust í dausgörn. Sjá nánar í umfjöllun um taugainnkirtlaæxli.

Hin megingerð krabbameina í smágirni er kirtilkrabbamein (adenocarcinoma) af svipaðri gerð og algengustu æxlin í maga og ristli. Þau eiga upptök sín í kirtilfrumum og innan smáþarmanna eru þau hlutfallslega algengust í skeifugörn. Þessi æxli eru sjaldgæfari en krabbalíki. Horfur sjúklinga með slík æxli eru lakari en þeirra sem eru með krabbalíki.

Einkenni

Algengustu einkennin eru kviðverkir, ógleði, uppköst og niðurgangur. Krabbamein í smáþörmum geta einnig valdið garnastíflu ef þau vaxa á þann máta að þrenging verði á holrými garnarinnar. Einnig getur blæðing frá meltingarvegi verið einkenni og slappleiki og megrun.

Krabbalíki (carcinoid æxli) framleiða stundum hormón og efni sem líkjast hormónum, m.a. serotonin og bradykinin. Það getur með tímanum í langt gengnum sjúkdómi valdið ákveðnum dæmigerðum einkennum eins og köstum með roða í húð, niðurgangi, áhrifum á hjartað og öndunarerfiðleikumvegna þess að lungnapípurnar dragast saman. Slíkt samsafn einkenna vegna krabbalíkis hefur verið nefnt carcinoid syndrome

Áhættuþættir

Orsakir krabbameins í smáþörmum eru eins og í öðrum krabbameinum þær að breytingar verða í erfðaefni sem veldur afbrigðilegum vexti sem smám saman getur orðið að krabbameini. Sjúklingar með bólgusjúkdóminn Crohn' í meltingarvegi eru í aukinni áhættu á að fá kirtilkrabbamein og svipaðir áhættuþættir og þeir sem valda ristil- og endþarmskrabbameini eru taldir geta aukið líkurnar á kirtilkrabbameini í smáþörmum svo sem áfengi, reykingar og arfgengir sjúkdómar.

Orsakir fyrir myndun á krabbalíki eru ekki vel þekktar.

Greining

Ef grunur er um æxlisvöxt í smáþörmum er oftast gerð tölvusneiðmynd eða segulómun af kvið. Smáþarmaspeglun og myndavélahylki sem sjúklingur gleypir geta einnig hjálpað til við að greina lítil æxli. Einnig er unnt að gera kviðarholsspeglun til að kanna ytra útlit smágirnis og uppgötva æxlisvöxt. Krabbalíki er stundum hægt að greina með því að mæla styrk mismunandi efna sem æxlin framleiða í blóðinu.

Meðferð

Meginmeðferð við æxlum í smáþörmum er skurðaðgerð. Við aðgerð er æxlið og hluti þarmanna með tilheyrandi hengi (mesenterium) ásamt nálægum eitlum fjarlægt. Í sumum tilvikum er hægt að meðhöndla kirtilkrabbamein með krabbameinslyfjagjöf. 
Krabbalíki er oft hægt vaxandi og ráðlegt getur verið að fjarlægja frumæxlið þó meinvörp séu komin og fjarlægja meinvörp ef unnt er til að minnka einkenni og bæta lífsgæði. Séu krabbalíkin útbreidd við greiningu sjúkdómsins hefur á undanförnum árum verið reynd meðhöndlun með efnunum interferoni og somatostatini, en það er mikilvæg ástæða þess að horfur sjúklinga með þess konar æxli hafa enn batnað á síðari árum.

Tölfræði og lífshorfur

Horfur sjúklinga með krabbamein í smáþörmum eru mismunandi eftir æxlisgerðum og stigi við greiningu. Horfur sjúklinga með krabbalíki, eitilfrumukrabbamein og sarkmein eru oftast betri en fyrir kirtilkrabbamein. Flestir sem greinast með krabbalíki lifa lengur en fimm ár frá greiningu og á það jafnvel einnig við um þá sem eru þegar komnir með meinvörp við greiningu sjúkdóms. 

Yfirfarið í desember 2020


Var efnið hjálplegt?