Ertu með einkenni?

Mikilvægt er að veita athygli þeim merkjum sem líkaminn kann að gefa um að heilsunni sé hætta búin. Viss einkenni vekja grun um krabbamein þó að vissulega geti þau einnig verið til marks um meinlausari kvilla.


Nauðsynlegt er að bregðast við einkennum því ef um krabbamein er að ræða eru mestar líkur á að meðferð beri árangur því fyrr sem hún getur hafist. 

Mikilvægt er að leita sér ráða ef eitthvað er öðruvísi en venjulega, án skýrra orsaka eða stendur yfir í langan tíma.

Helstu einkenni sem geta bent til krabbameins: 

Óvenjuleg blæðing 

Alltaf ætti að taka óvenjulega blæðingu alvarlega og leita til læknis. Vector-blood-drop-illustration_MJlfW0tO_thumb-1-

t.d.

  • blóð í hægðum, þvagi, sæði eða uppköstum.  
  • blæðing úr leggöngum á milli reglubundinna tíðablæðinga, eftir tíðahvörf eða eftir samfarir
  • blóðugur uppgangur við hósta.

Blæðingar eins og hér að ofan er lýst geta vissulega átt sér ýmsar orsakir aðrar en krabbamein, svo sem sýkingar, skeinusár eða gyllinæð.

Þær geta þó einnig verið af völdum krabbameins. Það getur m.a. stafað af því að í krabbameinsæxli myndast nýjar blóðæðar sem auðveldlega getur blætt úr. Einnig getur krabbameinsæxli vaxið inn í æð sem til staðar er, rofið hana og þannig valdið blæðingu.

Vertu vakandi fyrir:

Blóðugum uppköstum.

  • Blóðug uppköst geta t.d. stafað af skæðri sýkingu í maga eða magasári. Magakrabbamein getur þó líka verið orsökin. Kasti manneskja upp fersku blóði ætti að leita strax til læknis.

Blóðugu slími úr hálsi

  • Blóðugur slímugur uppgangur sem hóstað er upp getur m.a. orsakast af berkjubólgu en getur líka verið merki um lungnakrabbamein.

Rauðu eða svörtu blóði í hægðum

  • Blóð frá endaþarmi á í flestum tilfellum rætur sínar að rekja til gyllinæðar en ferskt, rautt blóð í hægðum getur líka verið merki um ristils- eða endaþarmskrabbamein. Ákveðinn matur t.d. rauðbeður sem og járn eða vítamín sem inniheldur járn getur litað hægðirnar dökkar. Dökkar hægðir geta þó einnig stafað af blæðingum í ristli. Hvort sem hægðir eru dökkar eða litaðar fersku blóði ætti að leita til læknis.

Blóði í þvagi

  • Blóð í þvagi getur m.a. verið af völdum sýkingar eða nýrnasteins. Það getur þó líka verið einkenni krabbameins í nýrum eða þvagblöðru og blæðingu af þeim völdum fylgja sjaldnast verkir. Alltaf ætti að leita til læknis verði vart við blóð í þvagi.

Blæðingu frá leggöngum

  • Blæði frá leggöngum utan reglulegra tíðablæðinga, eftir tíðahvörf eða eftir samfarir ætti að leita til læknis. Krabbamein í leghálsi eða legi er möguleg orsök slíkra blæðinga.  

Blóði í sæði

  • Sjaldnast greinist ástæðan fyrir því að blóð finnist í sæði en það getur mögulega verið af völdum sýkingar eða verið einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins.

Þykkildi eða hnútar

Ef vart verður við nýjan hnút/þykkildi eða breytingar á þeim sem eru til staðar ætti að leita til læknis.

Þykkildi og hnútar geta myndast víðs vegar í líkamanum, til dæmis í pung, í brjósti, á hálsi, vörum, tungu, í handarkrika eða nára.

Hnútar og þykkildi geta verið af völdum sýkinga, verið vökvafylltar blöðrur eða góðkynja æxli. Um krabbameinsæxli gæti þó einnig verið að ræða. Því ætti að leita til læknis verði maður var við slíkt.

Vertu sérstaklega vakandi fyrir:

  • Hnút sem fer hratt stækkandi
  • Hnút sem er harður/þéttur í sér
  • Hnút sem er eymslalaus

Mikilvægt er að taka eftir hnútum hvar svo sem þeir myndast á líkamanum en sérstakar leiðbeiningar um hvernig konur ættu að þreifa brjóst sín reglulega og karlar eistu er að finna hér:

Brjóstaþreifing– kennslumyndband

Sjálfskoðun eistna - bæklingur

Óútskýrt þyngdartap

Líkamsþyngd okkar getur breyst ef breytingar verða á matar- eða hreyfivenjum. Ef við hinsvegar léttumst án slíkra breytinga er ráðlegt að leita til læknis.

Ýmsar ástæður geti legið að baki því að manneskja léttist og er þyngdartap fylgifiskur margra sjúkdóma. Þeirra á meðal er krabbamein. Mikilvægt er því að leitað sé til læknis ef einstaklingur upplifir slíkt.

Þegar fólk með krabbamein léttist, getur það m.a. verið vegna þess að krabbameinsfrumur nota mikla orku sem líkaminn hefði annars notað til annarra hluta. Krabbameinsfrumur geta líka haft áhrif sem breyta því hvernig líkaminn vinnur úr næringarefnum fæðunnar.  

Þrálátur hósti eða hæsi

Finnir þú fyrir hósta eða hæsi lengur en í nokkrar vikur eða hefur langvarandi hósta sem svo breytist, ættir þú að leita til læknis.

Hósti er eðlilegt viðbragð líkamans til að hreinsa lungu og loftvegi.

Mikilvægt er að taka eftir því ef ,,venjulegur“ hósti einstaklings hefur breyst. T.d.

  • Þurr hósti
  • Hósti sem fer versnandi
  • Ef verkir fylgja hóstanum
  • Hósti sem hljómar öðruvísi en vant er
  • Ef slím fylgir hóstanum.

Ef breyttum hósta fylgja einnig einkenni sýkingar, t.d. slímuppgangur eða hiti getur verið um krónískar berkjubólgur að ræða. Einkennin geta þó líka átt rót sína að rekja til lungnakrabbameins.

Hósti af völdum lungnakrabbameins getur stafað af því að krabbameinsæxli vex einhvers staðar inn í loftvegina og veldur ertingu. Slímuppgangur í tengslum við hita eða hósta getur stafað af sýkingu í krabbameinsæxli. Oft þarf lítið til að blæði úr krabbameinsæxli og því getur fólk hóstað upp blóði frá æxli í lungum.

Blóðugur uppgangur

Hósti manneskja blóði eða blóðugu slími ætti hún strax að leita til læknis.

Hæsi

Flestir hafa einhvern tímann ,,misst röddina“ eða orðið hásir t.d. í tengslum við kvef eða þegar reynt hefur mikið á röddina. Mikil áfengisdrykkja og reykingar geta einnig valdið langtímahæsi.

Verði einstaklingur hinsvegar skyndilega hás án ástæðu og losnar ekki við hæsina að nokkrum vikum liðnum ætti að leita til læknis. Slíkt einkenni getur stafað af krabbameini í hálsi eða skjaldkirtli.

Langvarandi kyngingarerfiðleikar

Ef þú átt í erfiðleikum með að kyngja (með eða án brjóstsviða) ættir þú að láta lækni skoða þig.

Mjög algengt er að fólk finni fyrir kyngingarerfiðleikum í tengslum við hálsbólgu. Ef slík einkenni standa lengi yfir (meira en mánuð) eða fara versnandi ætti að hafa samband við lækni.

Einnig ætti að leita til læknis ef manni finnst eins og maturinn sitji fastur á leið sinni í magann.

Aðrar ástæður kyngingarörðugleika geta verið ýmsar, t.d. sjúkdómar í skjaldkirtli en þeir geta líka verið merki um krabbamein í vélinda, maga, hálsi eða skjaldkirtli.

Kyngingarörðugleikar í tengslum við krabbamein geta átt sér þá orsök að æxli vex inn í og þrengir að þeirri leið sem maturinn fer. Slík æxli geta einnig valdið uppköstum. 

Langvarandi kyngingarörðugleikar geta stafað af hálsbólgu en orsökin getur líka verið krabbamein. Þess vegna er mikilvægt að þú leitir til læknis.

Sár sem ekki grær

Sár gróa oftast fljótt. Sért þú með sár sem ekki grær ættir þú að óska eftir skoðun hjá lækni.

Sár sem grær ekki getur verið krabbamein.

Vertu á varðbergi, ef þú hefur fundið fyrir eftirfarandi einkennum í nokkra mánuði ættir þú að leita til læknis:

  • Sár sem ekki virðist ætla að gróa
  • þykkildi eða hnútur sem fer stækkandi og fer að vessa eða blæða úr.

Munnur

Krabbamein í vörum birtist oftast sem sár sem ekki grær og er í flestum tilfellum á neðri vör. 

Sár inni í munni sem ekki grær eða langvarandi rauð- eða hvítleitir flekkir á tungu, tannholdi eða hálskirtlum geta verið frumstig krabbameins.  

Kynfæri

Sár, kláði og erting í húð á kynfærasvæði geta haft fjölmargar orsakir en ein þeirra er krabbamein, bæði sem krabbamein í getnaðarlim karla og í sköpum kvenna (ytri kynfærum).

Fylgstu með húðinni

Skoðaðu húðina reglulega, þá tekur þú frekar eftir breytingum og getur brugðist fljótt við.

Breytingar á hægðum eða þvaglátum

Breytingar á hægðum eða þvaglátum, til dæmis langvarandi niðurgangur eða hægðatregða, blóð í hægðum eða erfiðleikar við að pissa. 

Hægðir

Niðurgang, hægðatregðu og magakveisu sem ganga yfir á stuttum tíma kannast flestir við að takast á við öðru hverju. Ef þú hinsvegar finnur fyrir öðruvísi óþægindum en þú hefur fundið áður  frá meltingarveginum og/eða breytingum á hægðum sem vara lengur en tvær vikur ættir þú að leita til læknis. 

Þar sem margskonar magakvillar og breytingar á hægðum eru algengar er mikilvægt að hafa ekki áhyggjur í hvert sinn sem einhverra einkenna frá meltingarvegi verður vart. Hinsvegar á að vera á varðbergi og veita því athygli ef breytingarnar eru öðruvísi en vant er eða vara lengur en tvær vikur og ætti þá að leita til læknis.

Þessu ættir þú að fylgjast með og bregast við:

  • Hægðatregða og niðurgangur á víxl lengur en í tvær vikur.
  • Ef þér finnst eins og þú náir ekki að tæma alveg þegar þú hefur hægðir.
  • Blóð í hægðum (hvort sem er ferskt, rautt blóð eða dökkar hægðir(mögulega litaðar af gömlu blóði).
  • Magaverkir sem standa lengur en í tvær vikur
  • Langvarandi niðurgangur eða hægðatregða
  • Þembutilfinning, loft í þörmum
  • Hægðir sem eru svipaðar blýanti að gildleika

Ýmsar orsakir geta legið að baki því að hægðamynstur breytist. Meðal annars veiru- og bakteríusýkingar, matareitranir og sýklalyfjanotkun. Þær geta þó líka stafað af krabbameini og því er mikilvægt að vera leita til læknis ef um óvenjuleg eða langvarandi einkenni er að ræða. 

Nýir fæðingarblettir eða breytingar á blettum

Verði vart við breytingar á fæðingarblettum ætti að láta athuga blettinn hjá lækni.

Vertu vakandi fyrir þessu:

  • Fæðingarbletti sem tekur breytingum, t.d. hvað varðar stærð, lögun eða lit
  • Ef blettur er ósamhverfur, með óreglulega jaðra eða hefur fleiri en einn lit
  • Ef hrúður myndast á fæðingarbletti eða sár myndast í honum
  • Ef viðvarandi kláði er í fæðingarbletti eða einhverskonar breyting verður á tilfinningu í honum
  • Ef nýr blettur myndast með einhverjum af ofangreindum einkennum

Gott er að venja sig á að skoða líkama sinn reglulega og horfa eftir fæðingarblettum. Þá getur maður tekið eftir ef nýir blettir bætast við eða breytingar verða á þeim sem eru þegar til staðar. Hægt er að nota spegil til að skoða bak og hnakka eða fá aðstoð frá öðrum.

Langvarandi óþægindi frá meltingarvegi

Magaverkir eru algengir og eiga sér ýmsar orsakir. Einnig er ekki óalgengt fólk finni fyrir uppþembu öðru hverju. Ef þembutilfinning er hinsvegar til staðar flesta daga yfir margar vikur eða ef magaverkir eru langvarandi ætti að hafa samband við lækni. 

Þó að ástæðurnar geti verið margar aðrar er mögulegt að um krabbamein sé að ræða og mikilvægt að fá úr því skorið.

Óvenjuleg þreyta

Ef þú hefur fundið fyrir mikilli þreytu/magnleysi (fatigue) í nokkrar vikur, án augljósrar ástæðu ætti að leita til læknis.

Viðvarandi þreyta er einkenni margra sjúkdóma og gefur til kynna að einstaklingur sé ekki frískur. Blóðskortur getur verið ein af orsökum þreytu. Ein af mögulegum ástæðum blóðleysis er krabbamein.

Magnleysi (fatigue) er mjög mikil þreyta sem ekki breytist þrátt fyrir hvíld. Slíkrar þreytu getur orðið vart þegar krabbamein vex og dreifir úr sér. Einstaka gerðir krabbameins geta þó valdið miklum þreytueinkennum á snemmstigum, t.d. hvítblæði. Einnig geta t.d. krabbamein í maga eða ristli valdið blóðmissi sem svo hefur í för með sér þreytueinkenni.

Finnir þú fyrir þreytu og almennum slappleika getur það átt sér ýmsar skýringar aðrar en krabbamein en mikilvægt er að fá úr því skorið. Leitaðu því til læknis finnir þú fyrir slíkum einkennum í lengri tíma.

Viðvarandi verkir án þess að orsök sé ljós

Fjölbreytilegar ástæður geta legið að baki verkjum. Finnir þú fyrir langvarandi verkjum sem ekki eiga sér ljósar orsakir ættir þú að leita til læknis.

Vertu sérstaklega vakandi fyrir:

  • Óútskýrðum verk sem er viðvarandi
  • Nýtilkomnum, miklum, þrálátum verk
  • Miklum höfuðverk sem ekki hverfur
  • Verkjum í baki eða mjaðmagrind
  • Magaverkjum sem vara lengur en í mánuð
  • Djúpum beinverkjum sem helst verður vart á næturna

Fólk finnur ekki fyrir verkjum í krabbameinsæxli. Æxli geta hinsvegar valdið verkjum ef þau vaxa inn í eða þrýsta á t.d. líffæri eða taugar.

Önnur, óalgengari einkenni

Ýmis einkenni önnur en þau algengustu sem fjallað er hér um geta verið merki um krabbamein. Vertu vakandi fyrir breytingum á líkama þínum og þá sérstaklega ef þær eru óvenjulegar fyrir þig, af óljósum ástæðum eða viðvarandi.

Ef þú verður var/vör við afgerandi breytingar á einhverri líkamsstarfsemi þinni eða líðan þinni – sérstaklega ef þær eru langvarandi eða fara versnandi, ættir þú að leita til læknis. Ef einkennin eiga rót sína að rekja til krabbameins þá eru líkur á árangri af meðferð meiri því fyrr sem hún hefst.



MUNDU!

Þrátt fyrir einkenni er ekki víst að um krabbamein sé að ræða

Næstum öll einkenni sem krabbamein geta haft í för með sér geta einnig verið til marks um ýmislegt annað. Mikilvægt er þó að fá úr því skorið hjá lækni.

Byggt á efni frá:

  • Kræftens bekæmpelse: ,,Symptomer på kræft“ og ,,kend de 7 tegn“.
  • American Cancer Society:,,Signs and Symptoms of Cancer“.
  • Irish Cancer Society:,,Signs and symptoms of cancer“.
  • Cancer research UK: ,,Key signs and symptoms of cancer“.


Var efnið hjálplegt?