14.03 2009

Áfengi, karlar og krabbamein

Karlar drekka mun oftar og meira en konur, samkvæmt könnun á áfengisvenjum íslendinga frá árinu 2004. Þeir drekka nánast þrefalt meira eða 72% alls áfengis sem neytt er í landinu. Árið 2008 voru seldir hér á landi 20.380 þúsund lítrar af áfengi og er þá ótalið allt það áfengi sem landsmenn neyta í útlöndum.

Áhrifin sem neysla áfengis hefur á heilsuna eru neikvæð á margan hátt – sérstaklega þegar um ofneyslu er að ræða. Áfengi er mjög fituleysanlegt sem gerir það að verkum að það kemst hratt og auðveldlega úr meltingarveginum inn í blóðstrauminn og dreifast með honum um allan líkamann. Þannig berst það fljótt til allra líffæra. Neikvæð áhrif geta verið með ýmsum hætti og komið fljótt eða ágerst með tímanum. Bein áhrif, sem geta komið fljótt, eru t.a.m. slys, ofbeldi og önnur atvik sem gerast í beinu framhaldi af áfengisdrykkju. Önnur áhrif koma síðar, m.a. breytingar á líffærum vegna langvarandi neyslu áfengis og valda ýmsum sjúkdómum og kvillum. Meðal þeirra má nefna skorpulifur, bólgur í brisi, getuleysi ásamt lakari framleiðslu á sæði, hækkaðan blóðþrýsting, skemmdir á hjartavöðva, svefntruflanir, kvíða, þunglyndi, sjálfsvíg og krabbamein.

Krabbamein

Margir trúa því að hófleg neysla léttvíns hafi góð áhrif á heilsuna. Samkvæmt rannsóknum má finna verndandi áhrif gegn ákveðnum hjarta- og æðasjúkdómum - og þá einungis fyrir karla og konur sem eru um eða yfir 45 ára og ekki meira en 1 glas (10g) af víni á dag fyrir karla og ½ (5g) fyrir konur. Allri áfengisneyslu fylgir þó ákveðin hætta fyrir heilsuna og eykst hættan í hlutfalli við meiri neyslu. Rannsóknir gefa sterklega til kynna að áfengisneyslu fylgi aukin hætta á að fá krabbameini og eykst hættan í hlutfalli við umfang neyslunnar, en eins og fyrr segir drekka karlar á Íslandi bæði mikið af áfengi og oft. Með áfengisneyslunni eykst hættan á myndun krabbameins hjá körlum sérstaklega í munni, hálsi, vélinda, lifur og ristli, en þetta hefur fjöldi rannsókna sýnt. Ekki er hægt að setja nein viðmið um hættulausa áfengisneyslu né virðist skipta máli hvaða tegund áfengis er neytt, bjór, vín eða sterkt áfengi; áhættan er sú sama. Vegna samverkandi þátta aukast líkur á myndun krabbameins enn frekar þegar bæði er neytt áfengis og tóbaks.

Rafn Jónsson er verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Lýðheilsustöð.

 

 

Skipta um leturstærð


Leit