30.01 2006

Leit að krabbameini í ristli

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan fyrst var farið af alvöru að skoða möguleika á að koma á skipulegri leit að krabbameinum í meltingarvegi. Málþing á læknadögum, sem haldnir voru í Reykjavík í liðinni viku, og mikilsverðar upplýsingar,sem þar komu fram, gáfu tilefni til fréttaskýringar og forystugreinar í Morgunblaðinu og er þakkarvert að fá svo vandaða umfjöllun til upplýsingar fyrir almenning sem málið varðar mjög miklu.

Á árunum 1985 og 1987 var gerð tilraun á vegum Krabbameinsfélag Íslands, undir umsjá Ásgeirs Theódórs læknis, til að kanna notagildi hópleitar að krabbameinum í ristli og endaþarmi með skimun á blóði í hægðum. Tekið var slembiúrtak 6.000 einstaklinga, jafnmargra af hvoru kyni, og skiluðu rúmlega 40% þátttakenda inn prófum sem þótti gott miðað við að engin ítrekun var send út. Allir sem voru með blóð í hægðum fengu boð í ristilspeglun og fundust 3 krabbamein, 2 á byrjunarstigi en 1 greindist með meinvörp til annarra líffæra. Síðan fundust allmörg góðkynja kirtilæxli hjá um 25% þeirra sem höfðu blóð í hægðum.

Ekki voru menn á eitt sáttir um fýsileika slíkrar hópleitar en nú, 20 árum síðar, er ljóst að fagleg samstaða er að myndast um að ekki sé verjandi að draga lengur að hefja skipulega leit. Rök heilsuhagfræðinnar með mælingum á árangri og kostnaðar/ávinnings hlutfalli styðja einnig að tekin verði tímamótaákvörðun fyrir lýðheilsuna í landinu um að veita fé til skipulegrar leitar að krabbameini í ristli.

Árlega greinast um 115 Íslendingar að meðaltali með krabbamein í ristli og endaþarmi og árlega deyja um 50–55 af völdum þeirra. Samkvæmt nýjum rannsóknum mun nýgengi haldast nokkuð stöðugt hjá körlum en aukast hjá konum en tilfellum fjölgar vegna hækkandi aldurssamsetningar. Það er einnig athyglisvert að talið er að í þremur af hverjum fjórum tilvikum megi ná góðum bata með markvissri meðferð ef sjúkdómurinn er greindur á forstigum.

Þannig er unnt að stórbæta horfur fólks með skipulegri hópleit þar sem ætla má að mörg jákvæð sýni komi vegna góðkynja kirtilæxla. Rannsóknir sýna einnig að með ristilspeglun og að fjarlægja sepa má minnka líkur á krabbameini um 75–90%.

Ályktanir Alþingis

Árni Ragnar Árnason alþingismaður, sem lést fyrir 2 árum langt um aldur fram, af völdum krabbameins í ristli, flutti fyrir nokkrum árum, ásamt þingmönnum annarra flokka á Alþingi, tillögur til þingsályktunar um aukningu forvarna gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi. Þessi tillaga var samþykkt á vorþingi 2003 og beint til heilbrigðisráðherra að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi, og undirbúa framkvæmd starfsins.

Á vegum landlæknisembættisins voru á árunum 2000–2002 gerðar klínískar leiðbeiningar um ristilkrabbamein. Leiðbeiningarnar voru birtar sem drög 11. janúar 2002 og var leitað eftir faglegum ábendingum/breytingartillögum og voru þær síðan uppfærðar 1. janúar 2003 á vefsíðu landlæknisembættisins.

Drífa Hjartardóttir alþingismaður tók svo nýtt frumkvæði á vorþingi 2005 með nýrri þingsályktunartillögu sem hún flutti með nokkrum öðrum þingmönnum en hún fékk ekki fullnaðarafgreiðslu. Tillagan var lögð aftur fram á Alþingi í október 2005 og er til meðferðar í þingnefnd. Flutningsmenn úr öllum þingflokkum eru Drífa Hjartardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Ögmundur Jónasson, Guðjón A. Kristjánsson, Halldór Blöndal, Rannveig Guðmundsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Tillagan er að: „Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í samráði við landlækni að hefja undirbúning að skimun eftir krabbameini í ristli og endaþarmi þannig að skipuleg leit hefjist 1. júlí 2006“.

Þegar liggja fyrir jákvæðar umsóknir frá Krabbameinsfélagi Íslands, Félagi íslenskra krabbameinslækna, Félagi sérfræðinga í meltingarsjúkdómum og Skurðlæknafélagi
Íslands.

Lokaorð

Fjöldi aldraðra á Íslandi eykst hratt og nýbirt spá segir fyrir um allt að 50% aukningu til ársins 2020 á fjölda nýgreindra með krabbamein í ristli og endaþarmi. Það er því augljóst að kostnaður við leit muni að óbreyttu aukast mikið og sá kostnaður sem verður af skimun og fer í ristilspeglanir til að fjarlægja sepa og greina krabbamein á frumstigi, mun augljóslega skila sér í verulegri lækkun meðferðarkostnaðar. Ég geri því lokaorð leiðarahöfundar Morgunblaðsins fimmtudaginn 19. janúar sl. að mínum en þar segir: „Skipulögð skimun er forsendan fyrir því að hægt sé að komast fyrir ristilkrabbamein í tæka tíð og því er ekki eftir neinu að bíða.“ Skora ég á alþingismenn að samþykkja fyrirliggjandi tillögu og veita fjármuni til að skipuleg leit hefjist sem fyrst.

Birt í Morgunblaðinu.

Höfundur er lyfjafræðingur.

Skipta um leturstærð


Leit